Bíða lögfræðiálits í Fjarðabyggð vegna ágangs sauðfjár í Stöðvarfirði

Í Fjarðabyggð er nú beðið sérstaks lögfræðiálits vegna kvartana landeigenda að Óseyri í Stöðvarfirði vegna ágangsfjár en á því máli eru ýmsir fletir óljósir. Álitið verður að líkindum tilbúið eftir viku eða tvær samkvæmt upplýsingum Austurfréttar.

Landeigendur að Óseyri innst í Stöðvarfirði sendu snemma í júnímánuði Fjarðabyggð bréf þar sem óskað var eftir að sveitarfélagið sinnti lögbundinni skyldu sinni að smala ágangsfé sem kæmi úr Breiðdalnum og ylli tjóni á landinu.

Innan sveitarfélagsins var ákveðið að taka beiðnina fyrir á fundi bæjarráðs þann 26. júní en í millitíðinni sendu landeigendur einnig Lögreglustjóranum á Austurlandi bréf þar sem óskað var eftir að embættið hlutaðist til um smölun fjárins þar sem Fjarðabyggð hefði ekki sinnt skyldum sínum lögum samkvæmt.

Á fundi bæjarráðs þann 26. júní var tekin sú ákvörðun að senda málið til umfjöllunar hjá Fjallskilanefnd meðal annars til að ganga úr skugga hvaðan umrætt fé kæmi. Þá ákvörðun gagnrýndu landeigendur í kjölfarið með nýju bréfi:

Bæjarráð vísar erindi okkar til til Fjallskilanefndar. Af hverju er því vísað til Fjallskilanefndar veit ég ekki. Ekki kemur fram hvenær sá fundur mun fara fram. Kannski á að fá nefndina til að finna út úr því hvaðan féð kemur. Ég vill benda bæjarstjórn á að það eru góðar líkur á því á stæðsti hluti þessa fjár komi frá aðila sem situr í Fjallskilanefnd.“

Þann þrettánda júlí síðastliðinn hélt Fjallskilanefndin fund en nefndin gat þó ekki tekið afstöðu til kröfu landeigendanna á þeim fundi vegna lögfræðilegra álitamála. Þar á meðal vegna þess að í fjallskilasamþykkt er ekki fjallað sérstaklega um ágang fjár á milli svæða eins og í þessu tilviki.

Lét nefndin bóka að brýnt væri af þessu tilefni að endurskoða fjallskilasamþykktir til að taka af allan vafa en ákvað ennfremur að óska eftir fyrrnefndu lögfræðiáliti vegna þessa áður en lengra væri haldið. Vinna við álitsgerðina hófst fljótlega að fundi loknum og ætti að liggja fyrir eftir viku eða tvær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.