Þrír austfirskir sigrar í gærkvöldi

Fjarðabyggð vann Þór Akureyri 2-0 á Eskifjarðarvelli í gær. Höttur vann ÍH/HV á útivelli 1-2 og Einherji rúllaði yfir Draupni 5-0. ImageFjarðabyggð spilaði einn sinn versta hálfleik á þessari leiktíð í fyrri hálfleik í gær og hefði trúlega gegn betra liði verið refsað grimmilega fyrir það. Það gerðist ekki og í seinni hálfleik náði liðið tökum á leiknum eftir mark Grétars Arnar Ómarssonar á 55. mínútu. Jóhann Ragnar Benediktsson komst inn fyrir vörn Þórs vinstra megin, markvörður Þórs varði skot hans en boltinn féll fyrri Grétar sem sendi hann í autt markið. Sjö mínútum síðar kom seinna mark Fjarðabyggðar þegar Högni Helgason skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Fjarðabyggð mætir á sunnudag úrvalsdeildarliði Fylkis í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Ljóst er að það verður erfiður leikur enda Fylkir í öðru sæti úrvalsdeildarinnar. Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar, segir ljóst að liðið verði að leika betur á sunnudaginn en það gerði. Það muni bíða átekta og ráðast á Fylkismenn á réttum stöðum, líkt og það hefur gert gegn flestum öðrum liðum til þessa. Verst sé að fyrirliðinn og Eskfirðingurinn Valur Fannar Gíslason sé í leikbanni. „Við vorum að spá í að sækja um undanþágu fyrir hann. Við vitum að hann langar til að spila gegn Fjarðabyggð.“

Hattarmenn hefðu betur sent Björgvin Karl Gunnarsson fyrr til Noregs  - eða fært hann framar – því hann skoraði í gærkvöldi sitt fjórða mark í sumar. Björgvin Karl, sem undanfarin ár hefur leikið sem vinstri bakvörður, hefur verið á vinstri kanti í sumar. Hann kom Hetti yfir strax á þriðju mínútu gegn ÍH/HV í gær eftir góðan undirbúning Vilmars Freys Sævarssonar. Elvar Þór Ægisson skoraði seinna mark Hattar kortéri síðar en mark heimamanna kom í seinni hálfleik. Höttur mætir Breiðabliki á Kópavogsvelli í bikarkeppninni á sunnudag.

Einherji rúllaði yfir Draupni á Vopnafjarðarvelli. Davíð Örvar Ólafsson skoraði beint úr horni og Daníel Smári Magnússon með sendingu aftan við miðju sem varð að skoti í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik bættu Sigurður Donys Sigurðsson, Marteinn Þór Vigfússon og Ragnar Antonsson við mörkum.

Höttur vann Fjarðabyggð/Leikni í 1. deild kvenna á Fellavelli á miðvikudagskvöld. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik. Á 70. mínútu kom Elísabet Sara Emilsdóttir Hetti yfir eftir stungusendingu og Fanney Þórunn Kristinsdóttir annað markið sjö mínútum fyrir leiklok eftir hornspyrnu.

Leiknir tekur á móti Dalvík/Reyni í kvöld og á morgun heimsækir Huginn Völsung.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.