Þrír austfirskir sigrar í gærkvöldi

Fjarðabyggð vann Þór Akureyri 2-0 á Eskifjarðarvelli í gær. Höttur vann ÍH/HV á útivelli 1-2 og Einherji rúllaði yfir Draupni 5-0. ImageFjarðabyggð spilaði einn sinn versta hálfleik á þessari leiktíð í fyrri hálfleik í gær og hefði trúlega gegn betra liði verið refsað grimmilega fyrir það. Það gerðist ekki og í seinni hálfleik náði liðið tökum á leiknum eftir mark Grétars Arnar Ómarssonar á 55. mínútu. Jóhann Ragnar Benediktsson komst inn fyrir vörn Þórs vinstra megin, markvörður Þórs varði skot hans en boltinn féll fyrri Grétar sem sendi hann í autt markið. Sjö mínútum síðar kom seinna mark Fjarðabyggðar þegar Högni Helgason skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Fjarðabyggð mætir á sunnudag úrvalsdeildarliði Fylkis í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Ljóst er að það verður erfiður leikur enda Fylkir í öðru sæti úrvalsdeildarinnar. Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar, segir ljóst að liðið verði að leika betur á sunnudaginn en það gerði. Það muni bíða átekta og ráðast á Fylkismenn á réttum stöðum, líkt og það hefur gert gegn flestum öðrum liðum til þessa. Verst sé að fyrirliðinn og Eskfirðingurinn Valur Fannar Gíslason sé í leikbanni. „Við vorum að spá í að sækja um undanþágu fyrir hann. Við vitum að hann langar til að spila gegn Fjarðabyggð.“

Hattarmenn hefðu betur sent Björgvin Karl Gunnarsson fyrr til Noregs  - eða fært hann framar – því hann skoraði í gærkvöldi sitt fjórða mark í sumar. Björgvin Karl, sem undanfarin ár hefur leikið sem vinstri bakvörður, hefur verið á vinstri kanti í sumar. Hann kom Hetti yfir strax á þriðju mínútu gegn ÍH/HV í gær eftir góðan undirbúning Vilmars Freys Sævarssonar. Elvar Þór Ægisson skoraði seinna mark Hattar kortéri síðar en mark heimamanna kom í seinni hálfleik. Höttur mætir Breiðabliki á Kópavogsvelli í bikarkeppninni á sunnudag.

Einherji rúllaði yfir Draupni á Vopnafjarðarvelli. Davíð Örvar Ólafsson skoraði beint úr horni og Daníel Smári Magnússon með sendingu aftan við miðju sem varð að skoti í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik bættu Sigurður Donys Sigurðsson, Marteinn Þór Vigfússon og Ragnar Antonsson við mörkum.

Höttur vann Fjarðabyggð/Leikni í 1. deild kvenna á Fellavelli á miðvikudagskvöld. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik. Á 70. mínútu kom Elísabet Sara Emilsdóttir Hetti yfir eftir stungusendingu og Fanney Þórunn Kristinsdóttir annað markið sjö mínútum fyrir leiklok eftir hornspyrnu.

Leiknir tekur á móti Dalvík/Reyni í kvöld og á morgun heimsækir Huginn Völsung.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar