Ný jarðgöng á Mið-Austurlandi skipta miklu máli

Ég kom til Seyðisfjarðar sumarið 1984 til að undirbúa tölvunámskeið með Apple IIE-vélum og kynna heimafólki þá byltingu sem þá var í uppsiglingu. Að koma úr rigningunni úr Reykjavík og á þennan dýrðarstað var ógleymanleg upplifun. Stafalogn og suðrænt veður og fólkið tók á móti okkur eins og hér væru þjóðhöfðingjar á ferð. Síðan hefur Seyðisfjörður með sínum háu fjöllum og fallegu húsum skipað viðhafnarsess í mínum huga.

Einangrun Seyðisfjarðar hefur lengi verið Gordíonshnútur sem þarf að leysa.

Einar Þorvarðarson, fyrrverandi yfirmaður Vegagerðarinnar á Austurlandi, skrifaði nýlega afar athyglisverða grein um fyrirhuguð jarðgöng á Mið-Austurlandi. Hann gagnrýnir skýrslu nefndar samgönguráðherra og alþjóðlega fyrirtækisins KPMG um jarðgöng á Mið-Austurlandi en nefndin leggur til að grafin verði jarðgöng undir Fjarðarheiði og seinna tvenn göng frá Seyðisfirði til Norðfjarðar. Einar bendir á ódýrari og miklu betri lausn sem hentar öllu svæðinu.

Einar er vel menntaður heimamaður og gjörkunnugur staðháttum og menningu svæðisins. Hann bendir réttilega á að ólíklegt er að rándýr risagöng undir Fjarðarheiði fái framgang vegna annarra brýnna verkefna í vegagerð. Reikningurinn hljóðar uppá 64 milljarða.

13 km löng göng undir Fjarðarheiði kosta 35 milljarða króna og leysa aðeins eitt vandamál þ.e. útrýmir árlegum 17 heilum eða hálfum ófærðardögum um heiðina um háveturinn þegar umferð er lítil.

Ráðlegging hins alþjóðlega bókhaldsfyrirtækis ber vott um takmarkað samráð við heimamenn og litla virðingu fyrir fjármunum ríkissjóðs.

Einar vill setja göngin frá Seyðisfirði til Norðfjarðar í forgang því sú framkvæmd tekur miklu styttri tíma og skapar frábær sóknartækifæri fyrir íbúana svo sem í ferðaþjónustu og fiskirækt og bætir samgöngur milli byggðakjarnanna. Ennfremur opnar þessi lausn fyrir fullkomið ferðaöryggi milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þá verður til nýr túristahringvegur um firðina sem er kærkomið tækifæri fyrir íslenska sem erlenda ferðamenn. Uppbygging ferðaþjónustu og laxeldis í fjörðunum verða framtíðaratvinnuvegir Austfirðinga og greiðar samgöngur eru lykilatriði í þeirri framfarasókn.

Myndin sýnir væntanlegan hringveg milli austfirsku fjarðanna. Rauðu punktarnir eru byggðakjarnar sem tengjast hringveginum. Hringurinn er 90 km langur og margt forvitnilegt í náttúrunni ber fyrir augu. Tilvalið er að heimsækja kaupstaðina og skoða ýmsa merkisstaði í ferðinni.

Ferð um austfirska túristahringinn sem gæti tekið 6-7 klukkustundir er vafalaust kærkomið tækifæri fyrir ferðafólk og gesti sem koma með Norrænu.

Kostir við að byrja gangagerðina með tvennum göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar:

1) Helmingi ódýrari og fljótvirkari lausn en tillaga KPMG.
2) Nýr spennandi ferðahringvegur verður til um austfirsku firðina.
3) Mjóifjörður verður í kallfæri og nýtist vel til búsetu, fiskeldis og ferðamennsku.
4) Örstutt er fyrir Seyðfirðinga að sækja læknisþjónustu til Norðfjarðar.
5) Gefur góð fyrirheit um samvinnu og samruna sveitarfélaga á Austfjörðum.
6) Opnar heilsársveg frá Seyðisfirði til annarra byggðakjarna.
7) Síðar mætti tengja Firðina betur við Héraðið og það er ódýrast með göngum undir Mjóafjarðarheiði.

Líklegt verður að telja að ríkissjóður sjái sér ekki fært að setja nema hámark 30 milljarða í þetta verkefni á næstu áratugum og þá fer best á því að heimamenn ráði för og velji á milli hringtengingarinnar milli fjarðanna og Fjarðarheiðarganga.

Höfundur er verkfræðingur og áhugamaður um blómlegt mannlíf á landsbyggðinni.

Myndir: Morgunblaðið

jardgangakort ellert olafsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.