Hringvegur á Mið-Austurlandi

Með bréfi dags. 21. september 2017 skipaði þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng. Göngin hafa það hlutverk að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og á Austurlandi öllu.

Ráðgjafarsvið KPMG skilaði verkefnishópnum skýrslu í mars 2019 sem nefnist „Jarðgöng á Austurlandi – Samfélagsleg áhrif“. Í skýrslunni er gerð grein fyrir sviðsmyndum um samfélagsleg áhrif ólíkra valkosta jarðgangagerðar til Seyðisfjarðar Þar segir meðal annars að ljóst sé að hringtenging vegasamgangna á Austurlandi er sú samgöngubót sem kæmi Austurlandi í heild best.

• Íbúar á Miðausturlandi hefðu val um tvær leiðir á milli helstu þéttbýlisstaða með hverfandi líkum á að ófærð setti strik í reikninginn.
• Miðausturland myndi styrkjast sem eitt atvinnusvæði.
• Bættar heilsársvegtengingar myndu styðja við heilsársferðaþjónustu.
• Framkvæmdin myndi ýta undir aukið samstarf milli íbúa og sveitarfélaga á mörgum sviðum, s.s. íþróttum, menningarmálum, félagsstarfi og menntamálum.
• Sveitarstjórnarmenn telja að þessi framkvæmd myndi styðja við sameiningu allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Og ennfremur:
“Með hringtengingu hafa íbúar á Mið-Austurlandi val um tvær leiðir milli allra helstu þéttbýlisstaða. Þannig myndi öryggi í samgöngum aukast mikið fyrir alla íbúa svæðisins. Ekki þyrfti lengur að aka neina fjallvegi til að komast á milli staða og starfsfólk yrði hreyfanlegra og búseta að skipta minna máli. Aðgangur að heilbrigðisstofnunum myndi batna og tengingar við flug og siglingar yrðu öruggari. Slík tenging myndi styðja við samstarf á öllu Mið-Austurlandi og gæti leitt til sameiningar allra sveitarfélaga á Austurlandi. Göngin myndu rjúfa vetrareinangrun Mjófirðinga og Seyðfirðinga. Þessi kostur myndi einnig búa til nýja möguleika í ferðaþjónustu þar sem ferðamenn gætu ekið í hring í stað þess að heimsækja „botnlanga“ og þurfa að aka til baka.”

Auk þess sem fram kemur í skýrslu KPMG má ætla að grunnatvinnuvegir s.s. sjávarútvegur og iðnaður muni njóta verulegs góðs af því að stækka atvinnusvæðið með þessum hætti og auka þannig möguleika þeirra til að starfa á stærri vinnumarkaði en nú er. Einnig má ætla að nýir atvinnuvegir, s.s. ferðaþjónusta og fiskeldi, muni eflast með auknu og öruggu aðgengi í formi hringtengingar á Mið-Austurlandi.

Í ljósi þessa og annara atriða og samanburð við ýmsa valkosti leggur verkefnishópurinn til: „Niðurstaða hópsins er að með hliðsjón af ávinningi samfélags og atvinnulífs á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með tvennum göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar annars vegar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar hins vegar á síðari stigum. Slík hringtenging færi samfélaginu á Austurlandi miklar samgöngubætur.“

Lagt er til að byrjað verði á 13.4 km löngum göngum undir Fjarðarheiði sem kosta munu um 35. milljarða kr. Framkvæmdatími er áætlaður er 7 ár. Í skýrslunni segir “ Frá öryggissjónarmiðum hafa menn áhyggjur af löngum göngum og Fjarðarheiðargöng yrðu mjög löng, bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða. Enn hefur ekki verið kannað nægilega vel hvaða áhrif það hefur á kostnað (ljóst að það eykur kostnað við loftræsingu bæði á framkvæmda- og rekstrartíma) og því er í grófri nálgun miðað við sama einingaverð og í öðrum göngum, þ.e. um 2,5 milljarða á km í göngum." 


Í síðari áfanga yrðu grafin tvenn 5.5 km og 6.8 km löng frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar. Kostnaður er áætlaður um 30 milljarða kr. Framkvæmdatími er áætlaður er 4 ár miðað við að unnið sé við bæði göngin í einu. Framkvæmdatími fyrir báða áfanga gæti verið með hæfilegum undirbúningstíma um 15 ár.

Þetta er því ákaflega vond niðurstaða og algjörlega óraunhæf. Hér er verið að tala um framkvæmdir fyrir óhemju upphæð eða 64 milljarða kr. Í ljósi þess að gríðarleg verkefni og dýr eru framundan á hinu almenna vegakerfi einkum á Suðvesturlandi, Mið- og Suður-Austurlandi að ekki sá talað um Vestfirði eða allar einbreiðu brýrnar. Nánast engar líkur eru á því að um þetta náist samstaða svo að þessu verði.

Fráleitt er að byrja á Fjarðarheiðargöngum sem er ákaflega áhættusamt verkefni og óvíst með kostnað. Hættan er sú að eftir að þeim lýkur verði talið ástæðulaust og enginn pólitískur vilji til að halda áfram frekari framkvæmdum við að tengja saman Seyðisfjörð og Norðfjörð og koma á hringtengingu sem mestu máli skiptir í þessu samhengi öllu.

Því er haldið fram í skýrslunni að þorri íbúa á svæðinu og fulltrúar atvinnulífs telji eðlilegt að byrja á því að gera göng undir Fjarðarheiði. Svo er ekki. Þvert á móti er mjög mikil óánægja víða með að svo verði staðið að málum. Engin kynning eða opinber umræða hefur átt sér stað um þessi mál og fólk því ekki í stakk búið til að taka afstöðu í þessum málum.

Megin mistök skýrsluhöfunda eru þau að skoða ekki og leggja til valkost sem byggir á því að grafa göngin milli Seyðisfjarðar um Mjóafjörð til Norðfjarðar og nýta veginn um Fjarðarheiði til að loka hringnum Þessi kostur gefur langsamlega mesta möguleika fyrir langminnstan tilkostnað (30 milljarða)og gæti verið tilbúinn eftir 6-7 ár, meðan tillögur nefndarinnar verða vart tilbúnar fyrr en eftir 15-20 ár. Nefndarmenn höfnuðu þessum valkosti með þessum orðum: „Verkefnishópurinn telur ekki raunhæft að ræða frekar þann valkost..... en því fylgir að vetrarumferð frá Seyðisfirði þyrfti að fara um Mjóafjörð til Norðfjarðar og áfram til Reyðarfjarðar og um Fagradal til Héraðs.“ Ja, þvílík ósköp!

Eins og rakið er í viðauka við skýrsluna var á árunum 2010-2017 ófært yfir Fjarðarheiði einhvern hluta dags að meðaltali í 17 daga á ári. Komið hefur fyrir að ófært hafi verið yfir Fjarðarheiði í nokkra daga samfellt, þó það sé sjaldgæft. Á sama tíma var ófært einhvern hluta úr degi yfir Fagradal í þrjá daga á ári að meðaltali.

Þetta gæti því verið raunhæfur valkostur sem hægt væri að ná sátt um þar sem hann mun valda byltingu í atvinnu og ferðamálum á Mið-Austurlandi innan 6 til 7 ára. Nú þarf strax að fara í opinbera kynningu og umræðu um þessa valkosti og þá efast ég ekki um að komist verði að góðri og skynsamlegri niðurstöðu sem allir geti sætt sig við.

Höfundur er fyrrverandi umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi

hringvegur einarth

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.