Heiti húsa

Byrjum bara á lögunum.

„Lög um örnefni.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er:
- að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum,
- að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju,
- að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð,
- að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.

2. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
Örnefni er nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.“
---.

Það má segja að tilræði við menningararfinn og tungumálið hafi gegnum árin komið úr ótrúlegustu áttum eins og frá „Pósti og síma“ sem á sínum tíma komst upp með að setja staðarnöf alfarið í nefnifall og tilkynna bara að Pósthúsin hétu þetta.

Annað atriði situr í óljósu minni mínu, krafa skipulagsyfirvalda um að sveitastjórnir þéttbýlis gengju frá götuheitum og húsnúmerum heima hjá sér.

Nú er það löngu orðið þannig að það er óþarfi að taka tillit til tölvubúnaðar hvað varðar stafafjölda eða tegund tákna, svo enda þótt búið sé að steypa saman gagnagrunnum þjóðskrár og fasteignaskrár eigum við kost á að skrá heiti húsa okkar í þann grunn, eða réttara sagt, fá byggingafulltrúa sveitarfélaganna til þess að gera það fyrir okkur. Við þurfum bara að skrifa honum póst eða tölvupóst og biðja um að skrá það heiti sem við höfum valið.

Ég, sem fæddur er á hanabjálka við Njálsgötuna í Reykjavík en fljótlega fluttur austur í Garð og þaðan í Stjörnuna og síðan Lúðvíkshúsið og loks Rjóður, er fyrir löngu búinn að gera mér grein fyrir því að staðarheiti skipta menninguna máli og hef fyllt þann hóp sem hefur viljað halda í örnefni og heldur fjölga þeim en hitt. Ég játa það fúslega að hafa látið fljóta að tilteknum ósi í þessum efnum og það sparkaði í hinn endann að fá bréf á dögunum þar sem stóð nafnið mitt og Skólabraut 5, Stöðvarfjörður. Frami í eldhúsi lá hins vegar Austurglugginn og á honum nafnið mitt og Skólabraut 5 Rjóður, Stöðvarfirði. Tilgangur bréfsins var að láta mig vita að eftirleiðis mundi ekki standa Rjóður á því sem segði til um hvar ég ætti heima.

Fyrir utan að kanna málið fór ég út og merkti fasteignina, - loksins.

Kannanir sýndu að það var búið að skrifa skýrslu sem undir lokin komst að því að…

„Mikilvægt er að frumvarp til laga um örnefni verði staðfest sem fyrst.“

Og dagsetning skjalsins er: 12.2.2015

Lögin sem ég byrjaði á tóku gildi 17. mars 2015. Það má víst kalla þetta málsmeðferðarhraða með fádæmum. Og „ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og menningarmálaráðherra eða mennta- og menningarmálaráðuneyti sem fer með lög þessi…“. - Feitletrun allsstaðar mín.-

Á sínum tíma höfðu Anna María og Linda Hugdís fyrir því hér á Stöðvarfirði að fá þjóðskrá til að setja heitin á Rjóðri og Vengi við götuheitin. Það sem gerðist þarna á dögunum var að þeim grunni var steypt saman við grunn fasteignamatsins, búinn til einn grunnur og fasteignamatsgrunnurinn réði.

Nú er það svo að norræna nafnahefðin er bara nafn og síðan kenninafn til hvers sem er, föður, móður eða maka, svo ég taki bara dæmi. Ég held að ég fái að vera Hrafn eða Krummi í Rjóðri það sem ég á ólifað burt séð frá því hvað stendur í, eða á, bréfum og pósti en veit af fenginni reynslu að húsanöfn hafa tilhneigingu til að glatast ef fólk ekki notar þau og það að koma þeim inn á fasteignaskrána eykur líkur á að þau glatist ekki og kannski að þau festist aftur við fólk, eða fólk við þau.

Ég er að biðja um hjálp við að varðveita þetta brot af menningararfinum. Skrifið þið byggingarfulltrúum og biðjið um skráningu á nöfnum þeirra fasteigna sem þið ráðið yfir. Já, og gefið þeim nöfn og skráið þau.

Kannski væri hægt að búa til Fésbókar- eitthvað. En ég geri það ekki.

En ef einhver heldur að þetta sé mér „mikið“ hjartans mál vil ég segja að frekar vildi ég að hámarkshraðinn á vegunum væri færður úr 90 í 80-. En það er nú önnur saga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.