Golfið er allra meina bót - Lávarðar Golfklúbbs Seyðisfjarðar neita að eldast.

Síminn hringir. Við erum í miðri morgunleikfiminni undir stjórn Halldóru Björns á RÚV. Við erum að æfa kviðvöðvana ,sem hafa slaknað örlítið og hjá sumum myndað pláss fyrir „kviðpoka“ sem ekki er í miklu uppáhaldi . Við fylgjum henni eftir samviskusamir og af bestu getu. Þegar síminn hringir aftur svörum við ekki þar sem nú er æfing til að styrkja sitjandann. Við þurfum og viljum taka þátt í að styrkja hann, svo við förum hvergi.

Þegar síminn hringir í þriðja sinn er Halldóra með okkur í teygju- og jafnvægisæfingum sem við megum alls ekki missa af Við látum hann bara hringja út. Eftir að morgunæfingunum lýkur tökum við loks upp símann. Þrjár hringingar frá Ingva Jóhanni (árgerð 1935) birtast á skjánum.Við hringjum til baka í númerið. „Hvar ertu?“ er spurt. „Við Jónsi Magg (árgerð 1930) og Jói Hansa erum búnir að fara í sund og búnir með morgunverkin Við bíðum eftir þér á teig á Hagavelli.

Ættfræðitíminn hjá Palla Gústa og Jóa fellur niður. Palli fór í róður. Bogi Laxdal þarf að passa hundinn fyrir Jón Hilmar og Veru.og Diddi Tollu skrapp í Egilsstaði að sækja batterí í hjartastuðtækið.“

„Hvaða læti eru þetta, tíminn okkar er ekki kominn,“ segjum við. „Já, heyrðu Valdi við bíðum sko ekki. Ég þarf að flýta mér með Huldu á Norðfjörð til að passa,“ segir Ingvi og skellir á.

Já þeir eru ákveðnir og skemmtilega hressir strákarnir á Hagavelli. Snjór hefur verið yfir öllu en grænir blettir hafa birst hér og þar í hlákunni síðustu daga. Slegið er á grænu blettunum og ef slegin golfkúla tapast er önnur slegin. Sú tapaða er þá týnd í snjónum þar til hún kemur í ljós er hlánar, ef Orri verður þá ekki búinn að finna hana. Svartar,rauðar og gular golfkúlur eru vinsælar en ekki alltaf til taks enda ekki lánaðar manna á milli.

Gæsir og rollur berjast um grænu blettina við félagana. Heyrst hefur að Palli og Jói hafi sést með byssur í golfpokunum síðustu daga. Eftir hven hring er kaffispjall í golfskálanum. Gleðin leynir sér ekki hjá félögunum þegar þeir rifja upp að aðeins eru nokkrir dagar í Golfferðina til Spánar .Þeir hafa hlerað að brautirnar þar séu þær lengstu í Evrópu og mjög krefjandi. Allar æfingar þessa dagana miðast því að lengja og styrkja sveifluna til að brautarhöggin verði lengri og stilla vel af „Háin3“: Húmorinn, höfuðið og hugarfarið.

Nýjar brautarkylfur og dræverar berast í pósti nær daglega. Leynd mikil hvílir yfir sendingu sem er nýkomin í hús hjá einum Lávarði GSF. Prófanir og sýnikennsla á nýjum tólum eru í gangi um hverja helgi sem dregur að sér áhugasama. Félagar úr Héraði mæta og taka þátt í fjörinu.

Nú bíða Spánarfarar spenntir eftir því að sjá hvernig golfbolirnir líta út sem GSF félagarnir klæðast alltaf í ferðum sínum erlendis. Ómar Boga og Guðjón Harðar ráða allri för varðandi hönnun og útlit. „Við ætlum sko ekki að láta klæða okkur í hvað sem er,“ segir yfirlávarður Jónsi Magg og lávarður Óli Fúsa tekur undir. .

Já það er ekki skrítið, en altalað, að lávarðarnir í GSF neita að eldast og vilja bara leika sér áfram eins og áhyggjulausir strákar alla daga á Hagavelli. Það fer ekki illa um þá í logninu á milli Bjólfs og Strandatinds eða eins og þeir segja brosandi út að eyrum . „Lífið er til að lifa því núna .Golfið er allra meina bót“

Kveðja frá Hagavelli. ( Þ.J. apríl 2019)

GSF félagar hafa árlega, frá 2003, farið saman í golfferðir til Spánar. Hópurinn saman á Tillanum í apríl 2018. Mynd Ómar Bogason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.