Gagnlegir fundir með Austfirðingum
Í nýafstaðinni kjördæmaviku þingmanna átti ég ýmist einn eða ásamt öðrum þingmönnum Norðausturkjördæmis fundi með sveitarstjórnarmönnum og fleirum í kjördæminu. Allt uppbyggilegir og góðir fundir.
Mikil áhersla var lögð á samgöngumálin og heilbrigðis- og þá einkum geðheilbrigðismálin. Áherslan á samgöngumálin kemur ekki á óvart enda hefur á undanförnum árum hlaðist upp mikil innviðaskuld í uppbyggingu og viðhaldi vega vítt og breitt um landið þannig að vegir liggja undir skemmdum. Sömuleiðis hefur gangagerð legið niðri í hálfan áratug. Á þessum fundum kom fram mikil bjartsýni á að ný ríkisstjórn láti verkin tala og snúi hratt og örugglega við blaðinu. Vissulega komu fram áherslumunur á hver forgangsröðin ætti að vera og vonbrigði um að ekki hafi verið staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í aðdraganda sameiningu sveitarfélaganna við myndun Múlaþings.
Fleiri mál bar á góma til að mynda skattlagning skemmtiferðaskipa, skólamál og auðvitað atvinnumálin. Á meðal sveitarstjórnarmanna komu fram réttmætar ábendingar og brýningar um að veita sveitarfélögum undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts vegna innviðauppbyggingar. Það eru fordæmi fyrir því að sveitarfélög hafi fengið tímabundnar undanþágur til innviðauppbyggingar á sviði fráveitumála og síðan varanlegri vegna búnaðar slökkviliða. Það er skynsamleg nú í kjölfar batnandi afkomu ríkissjóðs að horfa fyrst einmitt til skattalækkana á sveitarfélögin til innviðauppbyggingar meðal annars á uppbyggingu og viðhalds veitna og mannvirkja sem sveitarfélögin hafa lögbundnar skyldur til að reisa og viðhalda.
Það er einnig eðlilegt og sjálfsögð krafa að sjávarbyggðunum sé gert kleift að nýta nálæg fiskimið með vistvænum veiðarfærum, en fyrsta skrefið er að tryggja strandveiðar. Það er sömuleiðis hagsmunamál Austfirðinga sem og landsmanna allra að endurskoða fiskveiðiráðgjöfina frá grunni sem hefur leitt af sér samdrátt í veiðum á nær öllum nytjategundum sjávar.
Höfundur er þingmaður Norðausturkjördæmisins