Skip to main content
Benedikt V. Warén

Hringvegur (1) um Reyðarfjarðarbotn

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.08. október 2025

Tillaga Vegagerðarinnar: „Vegagerðin kynnir hér vega- og brúaframkvæmd í botni Reyðarfjarðar í Fjarðabyggð: „Við framkvæmdina verður Hringvegur (1) um Reyðarfjarðarbotn nýbyggður á 1,7 km löngum kafla um botn Reyðarfjarðar í samræmi við Aðalskipulag Fjarðabyggðar. Í tengslum við framkvæmdina verða nýjar tveggja akreina brýr byggðar á Norðurá og Sléttuá á nýjum stað. Fossá verður leidd um ræsi.“

Athyglisvert er að Vegagerðin er að aðlaga Hringveg (1) að skipulagi Fjarðabyggðar á sama tíma og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi heldur því blákalt fram að Vegagerðin ráði hvar Hringvegur (1) liggi um Múlaþing.

Hitt sem stingur í augun er að í annað sinn á stuttum tíma er verið að lengja Hringveg (1) á Austurlandi. Fyrra sinnið var þegar lega hans varð ekki lengur um Breiðdalsheiði, heldur um Suðurfjarðaveg í gegnum Stöðvarfjörð, innan við Búðir í Fáskrúðsfirði og um Fagradal. Nú er lögð til önnur lenging, sem að vísu er öllu styttri. Sú leið er fyrirhuguð um atvinnusvæði á Reyðarfirði (númer 1 á meðfylgjandi skýringarmynd), sem mun valda vegfarendum á norðurleið óþarfa ama á Hringvegi (1). Auk þess að verða lengri í kílómetrum talið, er Fagradalsbrautin frá Búðareyri að Norðurá háð hraðatakmörkunum og með hringtorgi, sem að óbreyttu gerir stærri bílum með aftanívagna erfitt fyrir. 

Eflaust er skýring á þessari útfærslu Vegagerðarinnar, en hún er í jafn mikilli móðu og skilgreiningin á þjóðvegi 92 um Búðarþorpið, annars vegar um Ægisgötu, sem breytist í Austurveg og hins vegar um götuna Búðareyri, sem breytist einnig í Austurveg. Í meðfylgjandi tillögu er ljóst að vegfarendur, sem leið eiga um Búðareyri, muni njóta þess munaðar að fara lengri leið, með hraðatakmörkunum og hringtorgi. Það er ekki svo lítils virði, - eða hvað?

Önnur útfærsla er hér kynnt um heppilegri útfærslu fyrir aðra vegfarendur. Þar er lagt til að lega Hringvegar (1), sem er númer 2 á meðfylgjandi skýringarmynd, verði tveggja akreina brú á Stuðlaá rétt innan við þá brú sem þar er og Hringvegur (1), Suðurfjarðavegur, verði tengdur inn á Fagradalsbrautina við afleggjarann að Sléttunesi 1. Við þá tillögu sparast við tillögu Vegagerðarinnar, eitt ræsi, vegstubbur inn á Þórdalsheiðarveg (936), sjávarfylling í botni Reyðarfjarðar og það sem mest er um vert, flæði umferðarinnar verður mun eðlilegra og verkið ódýrara. 

Því legg ég hér með til að valin verði leið 2 á meðfylgjandi skýringarmynd.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi

Veglína 1 er tillaga Vegagerðarinnar en lína 2 sú sem lögð er til í greininni. Teikning: Benedikt V. Warén