Skip to main content

Stuðningur sem skiptir máli 

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.17. október 2025

Í vikunni samþykkti Alþingi breytingar á lögum um stuðning við einkarekna fjölmiðla þar sem hlutfallslegur stuðningur við minni fjölmiðla er aukinn á kostnað þeirra allra stærstu. Þetta þýðir að meira fjármagn skilar sér til landshlutafjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins sem í mínum huga er jákvætt fyrir land og þjóð. 

Stóru fjölmiðlarnir þrír eru allir í höfuðborginni sem eðlilega getur litað efnistök og áherslur. Mikilvæg málefni dreifbýlisins mæta oft afgangi í þjóðfélagsumræðunni sem er bagalegt þótt ekki væri vegna annars en þeirrar gríðarlegu verðmætasköpunar sem á sér stað utan höfuðborgarinnar. Í því sambandi er Austurland gott dæmi en hátt í fjórðungur af heildar vöruútflutningi þjóðarinnar kemur úr landshlutanum.

Flestir sem eru í stjórnmálum gera sér grein fyrir að umfjöllun fjölmiðla skiptir máli í umræðum um forgangsröðun opinberra fjármuna og við stefnumarkandi ákvarðanir.

Það er ljóst að almennur skilningur og umfjöllun á nauðsynlegum úrbótum m.a. í samgöngu- og heilbrigðismálum gerir þingmönnum einstakra kjördæma auðveldrar að toga fé til verkefna í þeirra landshluta.

Öflugir landshlutafjölmiðlar eru mikilvægur hlekkur í byggðafestu. Í þessum fjölmiðlum birtast fréttir og umræða sem snertir íbúa í nærumhverfinu. Til að mynda varðandi skipulags- og atvinnumál, ferðakostnað og fleira.

Þróttmiklir landsbyggðarmiðlar reynast einnig stóru miðlunum í höfuðborginni oft uppspretta frétta og umræðu á landsvísu. Þannig rata til dæmis mikilvæg málefni Austfirðinga iðulega í almenna umræðu í landinu.

Innan ríkisstjórnarinnar er síðan unnið að allsherjar endurskoðun á stöðu Ríkisútvarpsins og á aðgerðum til stuðnings hins opinbera við einkarekna fjölmiðla í landinu. Það er öllum ljóst að miklar breytingar hafa átt sér stað á stöðu fjölmiðlunar á Íslandi og heiminum öllum vegna þeirra miklu tæknibyltingar sem orðið hefur allt frá aldamótum og í vaxandi mæli á undanförnum áratug. Nauðsynlegt er að bregðast við þessum breyttu forsendum til að tryggja ábyrga frjálsa fjölmiðlun í landinu.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi