Skip to main content

Kvennaverkfall 2025

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.29. október 2025

Það er frábært að lesa um og heyra hversu magnaðar konurnar voru sem fóru af stað til að berjast fyrir réttindum kvenna fyrir 50 árum. Við konur getum þakkað þeim mikið og vel fyrir að vekja máls á hversu mikið misrétti átti sér stað þá bæði launalega og vinnulega séð. Því miður hefur þessi barátta ekki tekið enda enn eftir öll þessi ár.

Það vantar að karlmenn geri sér grein fyrir að með því að styðja okkur og standa með okkur, þegar kemur að kjaramálum, eru þeir jafnvel að auðvelda sér lífið með því. Þeir gætu þá jafnvel verið meira heima fyrir með sínu nánasta fólki,börnum og konum. En ekki að vinna langt fram eftir degi.

Fyrir einhverjum árum tók ég þátt í kjaraviðræðum undirverktaka á svæði Alcoa Fjarðaáls þar sem allir fylgdust að með samninga þangað til kom að launaliðnum, þá var okkur skipt upp. Hvorki stéttafélagið né hinir starfsmenn verktakanna, sem voru þá frekar karllægir, voru tilbúnir til að berjast með okkur af kvennavinnustöðvunum á svæðinu alla leið, sem var mjög lélegt. Þannig að þá var þægilegra að skipta liði því þeir sáu ekki fram á að ná samningum ef launaliðurinn yrði tekinn yfir heildina. Það verður seint, því miður, þar sem við almennu verkakonurnar fáum fullan stuðning frá karlægu umhverfi.

Það verður spennandi að sjá hvernig öll umræða um leikskólamál endar. Skil ég vel að það þurfi að breyta einhverju þar en þá er líka spurning á hverjum það bitnar. Væntanlega konum því þær eru með lægri laun og liggur beinast við að kallinn taki lengri dag.

Það er ekki bara að það bitni á konum sem launþegum heldur líka þegar kemur að lífeyrisgreiðslum seinna meir á ævinni. Ef þú velur að vera heima með börnunum þínum ertu ekki að vinna þér inn nein lífeyrisréttindi frá lífeyrissjóði, þannig að þá verðurðu væntanleg líka með lægri laun sem gamalmenni. Því er það einskis metið ef þú velur að vera heima og ala upp börn þín, allavega fjárhagslega. Það þarf sem sagt að hugsa fyrir öllu alla leið.

Svo er eitt. Ef þú lendir í einhverju slysi á þeim árum sem þú ert með ung börn og hefur valið að vinna meira heima þá áttu mjög lítinn rétt frá tryggingafélögum þar sem þú getur ekki sýnt fram á neinar, eða litlar, tekjur, ólíkt maka þínum sem hefur tök á að vinna langan vinnudag.

Það er allavega mín reynsla, reyndar fyrir 25 árum síðan en ég held að þetta hafi ekkert breyst. Ef svo er, þá er það mjög gott.

Þó ég hafi verið með ágætis tryggingar þegar slysið átti sér stað þá voru skaðabætur metnar út frá tekjum árin á undan, einmitt á þeim árum sem ég var í barneignum.

En þessu þarf líka að spá í þegar kemur að því að ákveða hver verður heima með börnin vegna styttri vistunar.

Ekki má gleyma öllum duglegu erlendu konunum en manni líður stundum þannig að ekki sé farið vel með þær í íslensku vinnuumhverfi. Stöndum saman konur og höldum áfram að berjast fyrir rétti okkar. Ef við gerum það ekki sjálfar, gerir enginn það, allavega ekki öðruvísi en með okkar stuðningi 

ÁFRAM KONUR