Framboð og samkeppni í menningu á Fljótsdalshéraði

Nýverið var undirrituð viljayfirlýsing um áframhaldandi samstarf um undirbúning og fjármögnun menningarhúss á Egilsstöðum. Það er fagnaðarefni og óska ég bæjarstjórn og íbúum Fljótsdalshéraðs hjartanlega til hamingju.


Í kjölfar undirritunarinnar hefur komið fram sjónarmið sem lýsir áhyggjum af samkeppnisstöðu og breyttum rekstrarforsendum

Áhyggjurnar eru skiljanlegar, ekki síst í ljósi gífurlegrar vinnu og mikilla fjárhagslegra skuldbindinga sem rekstraraðili hefur tekið á sig í því einstaka framtaki að koma Hótel Valaskjálf í not. En þær eru að miklu leyti á misskilningi byggðar og ekki á rökum reistar svo fremur sem aðilar munu starfa innan eðlilegra marka og á forsendum sem fylgja reglum, skráðum sem óskráðum.

Mig langar að færa rök fyrir þeirri staðhæfingu í eins stuttu máli og auðið er.

Hvað er markaðsbrestur?

Almennt er litið svo á að hið opinbera eigi ekki að taka þátt í samkeppni við einkaaðila á markaði sem sér almenningi fyrir vörum og þjónustu. En markaðir starfa ekki allir eins, og á sumum þeirra er viðvarandi svokallaður markaðsbrestur. Markaðsbrestur verður þegar markaður starfar ekki á hagkvæman hátt en ástæðurnar geta verið fjölmargar, og einnig mismunandi eftir geirum.

Á markaði með svokallaða verðleikavöru, en menntun, listir- og menning o.fl. eru slík vara, eru gjarnan viðvarandi markaðsbrestir. Verðleikavara er vara eða þjónusta sem talin er auðga samfélagið og hafa í för með sér ávinning sem mælist ekki alltaf í verði. Talið er brýnt að varan eða þjónustan standi borgurunum til boða og þar sem markaðnum er ekki fært að tryggja framboð hennar grípur hið opinbera inn í með margvíslegum hætti.

Hver er eftirspurnin?

En samspil hins opinbera og einkageirans á markaði er flókið og verður að taka mið af markaðsaðstæðum. Helstu markaðsbrestirnir sem plaga lista- og menningargeirann koma til af skorti á eftirspurn. Stundum er varan það sértæk að tiltölulega fáir neyta hennar, en hún er nauðsynleg til að tryggja fjölbreytni, framþróun eða arfleið. Ópera er gjarnan nefnd í því tilfelli. Í öðrum tilfellum stafar skortur á eftirspurn af því að varan er mjög kostnaðarsöm í framleiðslu en söluverð eininga lágt og því næst ekki æskilegur fjöldi neytenda. Þar má nefna sem dæmi kvikmyndir og leiksýningar. Það er ekki að ástæðulausu að einkareknar óperur, leikhús eða kvikmyndaframleiðslufyrirtæki án styrkja eru ekki starfandi hér á landi.

Á öðrum sviðum lista- og menningar, sérstaklega á sviði afþreyingar- og dægurmenningar, gengur markaðnum betur. Og stundum stórvel. Þá er eftirspurn það mikil, gjarnan á móti hæfilegum framleiðslukostnaði, að einkaaðilar sjá sér hag í að starfa á honum. Þar sem slíkt ástand ríkir en nokkuð augljóst að hið opinbera á að halda sig til hlés og láta einkaaðilum eftir framboð. Það er samfélaginu ekki til hagsbóta að hið opinbera hrekji einkaaðila af markaði og noti samneyslufé til framleiðslu vöru eða þjónustu sem aðrir vilja og geta séð um framleiðslu á. Og það leiðir umræðuna að samkeppni.

Einokunaraðstæður á menningarmarkaði á Héraði

Markaðssamkeppni á sér ýmsar formbirtingar en eðli hennar er að framleiðendur keppast um að framleiða og bjóða vöru á verði sem tryggir þeim hámarks kaupvilja neytenda. Á lista-og menningarmarkaði á Fljótsdalshéraði ríkir almennt séð ekki samkeppni. Í flestum tilfellum er einungis um einn aðila að ræða sem býður fram ákveðna vöru eða þjónustu. Það þekkja flestir sem einokunaraðstæður, sem hér myndast vegna þess að einungis einn aðili, oftast sveitarfélagið, hefur burði til að starfa á markaði.

Í þeim tilfellum þar sem einkaaðili sér sér fært að vera á markaði á hið opinbera að halda að sér höndum – svo lengi sem einkaaðilinn tryggir að samfélagið njóti þeirrar auðgunar og ávinnings sem þörf er talin á. Þ.e. að hann tryggi fjölbreytni, magn og gæði á verði sem íbúar ráða við.

Krafa um að sveitafélagið haldi sig frá tónleikahaldi til þess að rekstrargrundvöllur einkaaðila bregðist ekki er í raun krafa um að einokunaraðstaða sé tryggð. Eigi svo að vera verður einkaaðilinn að tryggja fjölbreytnina, magnið, gæðin og verðið. Það er allsendis óvíst að slík skuldbinding sé einkaaðilanum í hag eða að hann ráði við hana.

Meira framboð eykur eftirspurn

Afurðir lista- og menningar hafa fleiri séreinkenni. Eru það sem kallast reynsluvara sem merkir að ánægja af neyslu eykst með reynslu – þar af leiðandi leiðir aukin neysla til enn aukinnar neyslu. Einnig, að neytendur neyta vörunnar vegna þeirrar upplifunar sem hún veitir þeim og upplifun er að verða ein eftirstóttasta varan á markaði, eftirspurn eykst langt umfram það sem gerist með aðrar vörur. Efnahagur hefur æ minni áhrif á þá neyslu, hún er nú framar í forgangsröðun sér í lagi hjá yngri kynslóðum.

Það er því ljóst að aukið framboð af listum- og menningu á Fljótsdalshéraði mun leiða til aukinnar eftirspurnar, neyslu og þátttöku. Með þeirri auðgi og ávinningi sem af hlýst. Slíkt mun hagnast einkaaðilum jafnt sem hinu opinbera. Vegna þeirra almannahagsmuna sem felast í nægu framboði, fjölbreytni og gæðum er yfirvöldum á Fljótsdalshéraði því skylt að tryggja viðgang einkaframtaksins en vera tilbúið til þess að bjóða fram það sem einkaframtakið er, einhverra hluta vegna, ekki tilbúið til að reiða fram.

Um rekstur ráðstefnuaðstöðu og framboð á húsnæði undir fundaraðstöðu gilda svo önnur sjónarmið og lögmál.

Höfundur er kotbóndi og menningarhagfræðingur á Hólshjáleigu í Hjaltastaðaþinghá.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.