Tvítugur Austfirðingur reynir fyrir sér sem atvinnumaður í skák: Ferðast á eigin vegum

bjarni_jens_kristinsson.jpgBjarni Jens Kristinsson, tvítugur Hallormsstaðarbúi, ferðast nú um Evrópu með það að marki að verða atvinnumaður í skák. Hann stefnir að því að ná fyrsta titlinum fyrir næsta sumar. Bjarni ákvað sjálfur að leggja á brattann og notar peningana úr sumarvinnunni til að ná markmiðinu.

 

Bjarni Jens er í dag í Osló í Noregi en heldur í lok næstu viku til Ungverjalands þar sem hann keppir á tveimur mótum í nóvember. Ferð hans hófst með tveimur mótum í Búlgaríu í september áður en hann færði sig til Slóveníu og síðan Noregs. Dagskránni fyrir áramót lýkur í Lundúnum í desember.

„Ég stefni að því að ná 2300 ELO-stigum fyrir næsta sumar sem myndi gefa mér fyrsta titilinn sem er FIDE-meistari,“ segir Bjarni í samtali við Agl.is. Hann er í dag með 2033 stig. Til að verða stórmeistari þarf 2500 stig. „Þú þarft að minnsta kosti að ná stórmeistaratigninni ef þú ætlar að verða atvinnumaður,“ útskýrir Bjarni.

Margar skákir þarf til að bæta við 300 stigum eins og Bjarni ætlar sér í vetur. Stigin eru reiknuð á tveggja mánaða fresti. Í hverri skák er mest hægt að vinna eða tapa 15 stigum. Það veltur á styrk andstæðingsins, stigunum fjölgar eftir því sem sterkari mótherji en sigraður en fleiri tapast á móti veikari mótherja.

Fimm tíma kappskákir - tveggja vikna mót

Oftast eru tefldar sjö eða níu umferðir á hverju móti en þær geta orðið allt að ellefu. Að jafnaði er tefld ein umferð á dag. Í lengri mótunum er gjarnan einn frídagur og geta þau því staðið yfir í tvær vikur. En þótt talað sé um „kappskákmót“ hverfur kappið úr huga flestra þegar þeir komast að því hversu langar skákirnar eru.

„Kappskákir eru allar skákir sem eru með lengri umhugsunarfrest en klukkutíma á keppanda. Yfirleitt hafa menn einn og hálfan tíma. Síðan bætast 30 mínútur við eftir 40 leiki og síðan hálf mínúta eftir hvern leik. Skákirnar taka venjulega 3-4 tíma, gjarnan fimm tíma ef jafnir menn tefla. Góður undirbúningur tekur minnst jafn langan tíma og skákin sjálf.“

Eins og í öðrum íþróttum verja menn miklum tíma í að kynna sér andstæðinginn. „Þegar þú veist hverjum þú mætir sestu niður með tölvuna og ferð að leita í gagnagrunni að eldri skákum hans. Þú skoðar hvernig hann teflir og reynir að læra inn á hann, til dæmis að undirbúa sérstakt afbrigði af varnarleiknum. Hann svarar á móti með að bregða út af sínum hefðbundna leik til að koma manni á óvart.“

Ákvað þetta einn

Bjarni er einn á ferð enda ákvað hann sjálfur að leggja út í þetta ævintýri. Hann safnaði sér í sumar fyrir kostnaðinum með vinnu, leggur sjálfur út fyrir öllu en hefur fengið styrki frá nokkrum austfirskum aðilum.

„Stundum ferðast menn saman en ég ákvað þetta einn. Í Slóveníu tók ég þátt í sveitakeppni í sex manna íslensku liði. Ég geri ráð fyrir að keppa á fleiri mótum á Íslandi eftir áramót, það er töluvert ódýrara fyrir mig.“

Horfir á skákupptökur á þrekhjólinu

Bjarni þarf líka að halda sér í góðu líkamlegu formi til að halda einbeitingunni við skákborðið. Til þess gengur hann, syndir, skokkar og hjólar. „Ef maður er í slæmu formi segir líkaminn til sín og það truflar einbeitinguna. Það er eitt af því sem gerir skákina að íþrótt. Þjálfarinn minn [Henrik Danielsson, stórmeistari] kenndi mér að vera á þrekhjóli og horfa á skákupptökur í leiðinni.“

Sérstakar æfingar eru gerðar til að auka einbeitinguna. „Það hefur verið einn af mínum helstu göllum undanfarið ár að missa einbeitinguna í lokin. Ég hef því unnið að efla andlegan styrk minn. Menn þurf að geta einbeitt sér að skákinni og útilokað allt annað, hvort sem það er léleg staða, tímahrak eða eitthvað annað.

Ég nota geisladiska með upptökum þar sem talað er við mann. Maður fylgir leiðbeiningunum til að tengja ákveðna líkamlega hreyfingu, til dæmis að klípa sig á milli puttanna, við hamingju eða það að vera rólegur. Það hjálpar manni til við að halda einbeitingunni.“

En til að halda út í fimm tíma skák – þarf maður þá ekki að vera með góða blöðru? „Maður getur farið á klósettið þegar andstæðingurinn þarf að hugsa. Maður fer ekki ef maður er kominn í tímahrak!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.