Mögnuð tilfinning að vakna upp sem bikarmeistari

Lið Þróttar Neskaupstað hampaði í gær bikarmeistaratitli kvenna eftir sigur á HK í oddahrinu í Digranesi. Fyrirliði liðsins segir liðið hafa mætt einbeitt inn í oddahrinuna eftir risjóttan leik.

„Við erum allar mjög þreyttar en mjög ánægðar,“ segir Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar. Þegar Austurfrétt heyrði í henni upp úr klukkan tíu var hún að koma til Norðfjarðar með bikarinn en hluti liðsins kom aftur austur með flugi í morgun.

Þróttur vann fyrstu hrinuna en tapaði þeirri næstu. Særún Birta segir spilamennskuna í þeirri fyrstu hafa verið mjög góða en í annarri hrinu hafi móttakan klikkað.

Þá fór það illa í liðið þegar einn leikmaður þess missteig sig og lá á eftir á vellinum. Dómarar leiksins stöðvuðu ekki leikinn svo HK skoraði. Í ofanálag ruglaðist sendingaröðin hjá Þrótti þannig HK fékk annað stig dæmt. „Við fórum í eitthvert stresskast,“ segir Særún.

Liðið vann þriðju hrinuna en HK þá fjórðu. Í oddahrinunni var hins vegar engin spurning um hvort liðið ynni, Þróttur vann hana 15-7. „HK spilaði mjög vel í gær en fyrir oddahrinuna sögðum við að nóg væri komið og við myndum taka þetta.“

Norðfirðingar, bæði núverandi og fyrrverandi, fjölmenntu á pallana í Digranesinu í gær enda var einnig leikið til úrslita um bikara yngri liða um helgina. Þróttur kom heim með bikarmeistaratitil í fjórða flokki kvenna og þriðja flokki karla.

„Það voru margir með okkur og mikið fagnað. Þetta er frábær stuðningsmannahópur sem við höfum.“

Nú tekur við frí hjá Þrótti fram yfir páska. Liðið varð nýverið deildarmeistari og spilar næst í undanúrslitum rimmunnar um Íslandsmeistaratitilinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar