Lengjubikar: Höttur glutraði niður þriggja marka forskoti

hottur_valur_lengjubikar_26022012_0011_web.jpg

Höttur reið ekki feitum hesti frá Reykjavíkurferð sinni í Lengjubikar karla því liðið tapaði fyrir Leikni eftir að hafa komist 0-3 yfir í byrjun. Liðið beið einnig ósigur í Grindavík.

 

Leikurinn gegn Breiðholtsliðinu á föstudagskvöld byrjaði vel hjá Hetti. Stefán Þór Eyjólfsson kom liðinu yfir strax á 19. mínútu og í kjölfarið fylgdu tvö mörk Elvars Þórs Ægissonar á næstu fimm mínútum.

Leiknismönnum tókst hins vegar að jafna fyrir hálfleik og létu kné fylgja kviði með þremur mörkum í viðbót um miðjan seinni hálfleik. Stefán Þór lagaði stöðuna með tveimur mörkum í uppbótartíma.

Höttur tapaði síðan 4-1 fyrir Grindavík á sunnudag. Staðan var 3-0 fyrir heimamönnum í hálfleik. Högni Helgason skoraði mark Hattar í lokin en Pape Mamadou Faye skoraði þrennu fyrir Grindavík.

Höttur leitar nú að markverði fyrir sumarið en ljóst er að Ásgeir Magnússon, sem spilaði með liðinu í fyrra, verður ekki með í ár. Samkvæmt heimildum Agl.is er meðal annars leitað út fyrir landssteinana að markverði.

Þá halda vangaveltur um hugsanlega þátttöku Ívars Ingimarssonar áfram. Ívar, sem verið hefur atvinnumaður í Englandi í á annan áratug, flutti austur í Egilsstaði með fjölskyldu sinni um síðustu helgi. Hann er væntanlegur á æfingar með liðinu um og eftir páska en alls er óvíst um þátttöku hans í sumar. 

Sóknarmaður er einnig á óskalistanum fyrir átökin í fyrstu deildinni í sumar. Davíð Einarsson, sem raðaði inn mörkum í öðrum flokki KR í fyrra, er væntanlegur austur til reynslu um páskana.

Leiknir tapaði 3-4 fyrir Magna í Lengjubikarnum um helgina. Vilberg Marinó Jónasson skoraði tvö mörk fyrir Leikni og Almar Daði Jónsson það þriðja. 

Leiknir og Sindri mætast í Síldarvinnslumótinu í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 19:00 í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.