Leikskýrsla: Þróttur tapaði bikarúrslitaleiknum

throttur_umfa_blak_bikarurslit_18032012_0002_web.jpg
Þróttur Neskaupstað varð að sætta sig við silfrið í bikarkeppni kvenna í blaki eftir 0-3 tap gegn Aftureldingu í úrslitaleik í Laugardalshöll í dag. Reynsla og úthald Aftureldingar lagði grunninn að sigrinum gegn ungu Þróttarliði, sem samt getur borið höfuðið hátt.

Leikurinn byrjaði reyndar ekki vel, eftir að hafa lent 1-6 undir í fyrstu hrinu tók Matthías Haraldsson, þjálfari, leikhlé. Það bar árangur því Þróttur skoraði næstu fjögur stig og minnkaði muninn í 5-6. 

Afturelding náði aftur þriggja stiga forskoti, 9-12 en það saxaði Þróttur líka niður. Með mikilli baráttu komst liðið yfir 16-15. og hélt henni um stund upp í 18-17. Þá tók Afturelding við sér, skoraði átta stig í röð og vann hrinuna 18-25. 

Síðustu þrjú stig Aftureldingar komu eftir að smöss Þróttarstúlkna lentu utan vallar. Á þeim tíma sem Norðfjarðarliðið komst yfir spilaði það frábæra vörn, einkum upp við netið.

Missir Þróttar, gróði Aftureldingar

Lið Aftureldingar byggir að miklu leyti á lið Þróttar sem varð þrefaldur meistari í fyrra. Til þeirra flutti Apostolov fjölskyldan, þjálfarinn Apostol og leikmennirnir Miglena og Kristina sem leikið höfðu um árabil með Þrótti. Að auki fylgdi dóttirin Velina, sem leikið hefur með HK síðustu ár og Zaharina Filipova, sem var áður hjá Þrótti. Zaharina var í leikslok í dag valinn besti maður leiksins.

Apostol, sem einnig er landsliðsþjálfari kvenna, fékk reyndar ekki að stýra liði sínu í dag. Honum var vísað af velli í undanúrslitaleiknum í dag og sat því upp í stúku. Hann sat samt nálægt vellinum og kallaði inn á þegar færi gafst. Árvökulir áhorfendur bentu einnig á að hann hefði virst koma skipunum á bekkinn í gegnum síma.

Aftureldingarliðið er í fyrsta skipti í fyrstu deild kvenna og útlit er fyrir að tímabilið verði gott. Liðið hefur deilt efsta sæti deildarinnar með HK, sem liðið vann örugglega í undanúrslitunum í gær og náði í dag bikarmeistaratitlinum.

Yfir framan af annarri hrinu

Þróttur byrjaði betur í annarri hrinu og komst í 3-1 en því snéri Afturelding við í 5-3. Hrinan var annars mjög jöfn, Þróttur náði undirtökunum og var 1-2 stigum á undan þar til staðan var 14-12. 

Þá hrökk allt í baklás. Afturelding skoraði þrjú stig í röð og komst yfir 14-15. Leikhlé Þróttar lagaði ekki stöðuna. Afturelding tók annan kipp í stöðunni 16-17 og breytti henni í 17-24. Eitt stig í lokin var bara til málamynda í hrinu sem Afturelding vann 18-25.

Áhorfendapallarnir í dag voru fullir af rauðklæddum Mosfellingum sem létu vel í sér heyra. Stuðningsmannahópur Þróttarstúlkna var nánast takmarkaður við varamennina sem kölluðu „Áfram Þróttur“ á meðan þær hituðu upp.

Afturelding vann á þrautsegjunni

Jafnt var á öllum tölum framan af þriðju hrinu. Jafnt var 4-4, Afturelding komst í 6-9 en Þróttur jafnaði 9-9. Afturelding komst í 10-12 en Þróttur komst yfir 13-12. Afturelding jafnaði með glæsilegu stigi, nánast allt liðið henti sér í gólfið til að verja bolta frá Þrótti eftir langa sókn. Það tókst, boltinn fór yfir og misskilningur innan Þróttarliðsins kostaði stig.

Þær svöruðu strax fyrir sig og komust í 15-13. Afturelding tók þá leikhlé. Aftur snérist hrinan. Þróttur var yfir 16-15 en þá komu þrjú stig Aftureldingar í röð. Þar með var grunnurinn lagður að sigrinum en hrinan fór 19-25.

Þróttarstúlkur geta borið höfuðið hátt þrátt fyrir að hafa tapað bikarnum yfir til Aftureldingar. Liðið er ungt og óreynt og hefur tekið miklum framförum í vetur. Þegar hávörn og móttökur gengu sem best í dag átti liðið í fullu tré við Aftureldingu. Áhyggjuefnið er að liðið gefur eftir þegar líður á hrinurnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.