Leikmaðurinn viðurkenndi brot sitt – Myndband

Allsérstakt atvik kom upp í leik Hattar/Hugins og Dalvíkur/Reynis í Lengjubikar karla í knattspyrnu síðasta laugardag. Mark var dæmt af norðanliðinu eftir að sá sem skoraði viðurkenndi brot.

Leikurinn fór fram á Fellavelli um síðustu helgi. Höttur/Huginn komst yfir á 85. mínútu með marki Brynjars Þorra Magnússonar.

En þegar komið var fram í uppbótartíma fengu gestirnir aukaspyrnu við vítateiginn vinstra megin. Boltinn var sendur inn í teiginn þar sem sóknarmaður Dalvíkur/Reynis skallaði boltann í markið og jafnaði.

Leikmenn Hattar/Huginn mótmæltu strax á þeim forsendum að boltinn hefði snert hönd markaskorarans, en samkvæmt knattspyrnulögunum skal dæma mark af ef slíkt gerist. Á meðan fagna leikmenn gestanna, þótt markaskorarinn virðist fljótlega láta samherja sína hvernig í pottinn er búið.

Dómarar leiksins virðast ekki sjá snertinguna enda er erfitt að sjá hana á upptökunni, auk þess sem hópur leikmanna skyggir á sjónarhorn dómaranna.

En í þann mund sem leikmenn Hattar/Hugins eru tilbúnir í að hefja leik að nýju á miðju gefur markaskorarinn dómaranum bendingu um að hann hafi snert boltann hendinni. Þar með er markið dæmt af og fagna heimamenn heiðarleika leikmannsins. Þjálfari hans mun ekki hafa orðið jafn ánægður enda vann Höttur/Huginn þar með leikinn 1-0.

Myndband: Höttur/Huginn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.