„Kortéri frá atvinnumennsku eftir veturinn“

Þrátt fyrir meiðsli hefur veturinn verið gjöfull fyrir snjóbrettakappann Rúnar Pétur Hjörleifsson. Gott gengi þýðir að hann er skref nær draumnum um atvinnumennsku.

Rúnar Pétur hélt erlendis í byrjun desember og keppti á fimm mótum í Alpahéruðum Sviss og Austurríkis fram í miðjan febrúar þegar hann meiddist. „Ég lenti í öðru sæti á tveimur mótum, einu sinni í þriðja sæti, einu sinni í sjötta sæti en svo datt ég og lenti í nítjánda sæti,“ segir hann í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Fyrir páska tók hann svo þátt í Íslandsmótinu sem haldið var á Siglufirði og varð annar, þrátt fyrir að detta. Það var fyrsta Íslandsmótið í grein Rúnars Péturs sem kallast „freeride“

Stjörnulífið

Erlendu mótunum er styrkleikaskipt. Nýliðar í faginu byrja á einna stjörnu mótum og vinna sér inn stig með góðum árangri þar til þeir komast upp í fjögurra stjörnu mót. Næsta stig fyrir ofan þau eru heimsbikarmót, en þá er hægt að tala um að menn séu orðnir atvinnumenn. Sterkari mót gefa fleiri stig en þar eru líka öflugri keppinautar.

Mótin tvö þar sem Rúnar Pétur lenti í öðru sæti voru tveggja stjörnu mót en hann varð þriðji á þriggja stjörnu móti. Næsta vetur stefnir hann lengra. „Það má segja að ég sé kortéri frá atvinnumennskunni. Ég er með styrktaraðila en borga samt meira og minna allt sjálfur. Ég vona að það gerist eitthvað stærra næsta vetur.“

Þetta er annar veturinn þar sem Rúnar Pétur keppir og sá þriðji sem hann eyðir nær alfarið í Austurríki. „Ég hef búið þar í húsbíl sem ég gerði upp með félögum mínum. Það er virkilega fínn ferðamáti. Þá þarf ég ekki alltaf að panta og borga fyrir gistingu heldur get farið á milli á ódýrari máta. Ég er í samfloti með félögum mínum og legg með þeim á bílastæðunum hjá skíðasvæðunum.“

Snýst um að finna bestu leiðina niður

„Freeride“ sem er nokkuð frábrugðin brettakeppninni sem Íslendingar hafa til dæmis fylgst með á Ólympíuleikum. Freeride gengur út á að keppendur fara upp á fjall og finna sína leið niður hlíðina. „Þetta gengur út á að renna sér utan brautar í fjöllunum. Við veljum okkar línu niður og síðan eru dómarar sem dæma hver tekur flottustu línuna, hver tekur bestu stökkin og svo framvegis.“

Myndbönd af slíkum ferðum eru oft ógnvænleg þar sem brettakapparnir henda sér í frjálsu falli fram af klettabrúnum. „Ég hugsa ekki um það, ég einbeiti mér bara að því að finna bestu línuna. Stundum er fallið hærra en maður hélt og verður þá ögn ógnvænlegt en þá gildir að halda einbeitingunni.“

Keppendur mæta á keppnisstað nokkrum dögum fyrir keppni og fá þann tíma til að kynna sér aðstæður. „Við fáum myndir af svæðinu og förum á svæðið nokkrum dögum fyrir keppni. Ég er nokkuð góður í að finna mér línur.“

Þá hæfni hefur Rúnar Pétur þjálfað með sér í austfirsku ölpunum. Hann er 24ra ára en hefur verið á snjóbrettinu frá því hann var rúmlega 10 ára gamall. „Ég byrjaði að fara á bretti í Oddsskarði. Þar voru aldrei neinir stökkpallar þannig ég fór að finna mínar eigin leiðir. Það voru strákar í Neskaupstað sem plötuðu mig í þetta og ég fílaði þetta í botn. Síðar fór ég í mánaðarferðir til Austurríkis og síðan hef ég verið heltekinn. Fjöllin fyrir austan eru þau bestu – þegar það er snjór í þeim.“

Mynd: Víðir Björnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.