Körfubolti: Kærkomið að fá auka viku í undirbúninginn

Þrír nýir erlendir leikmenn mæta til leiks með liði Hattar sem leikur sinn fyrsta leik á leiktíðinni í fyrstu deild karla í körfuknattleik þegar Sindri frá Höfn kemur í heimsókn í kvöld. Stefnan er sett á að vera annað af þeim tveimur liðum sem kemst upp úr deildinni og spilar í úrvaldsdeildinni að ári.

„Félagið hefur stefnt að því að búa til stöðugt úrvalsdeildarlið og við erum enn að vinna í því en stefnan er sett upp,“ segir þjálfari liðsins, Viðar Örn Hafsteinsson.

Höttur spilaði í úrvalsdeild fyrir tveimur árum og var spáð sigri í fyrstu deildinni í fyrra. Liði náði hins vegar aldrei stöðugleika og féll úr leik eftir oddaleik í undanúrslitum deildarinnar gegn Hamri.

Samkvæmt spá forráðamanna, fyrirliða og þjálfara í deildinni er þessum liðum spáð upp, Hamri í fyrsta sætinu og Hetti því. Viðar Örn spáir því að hart verði barist um sætin. „Deildin er sterkari en í fyrra. Liðin í efri hluta hennar hafa eflst síðustu ár og nú eru í henni fullt af fínum liðum, svo sem Hamar, Breiðablik, Vestri og Álftanes.“

Tveir nýir leikmenn

Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá í fyrra. Bandaríski bakvörðurinn Charles Clarke er farinn á braut sem og miðvörðinn André Huges og Andrée Michaelsson, sem genginn er í raðir Sindra. Þá mun Hreinn Gunnar Birgisson ekki spila með liðinu í vetur vegna anna í námi og vinnu.

Hvert lið í deildinni má vera með einn leikmann frá landi utan Evrópu á vellinum í einu. Það sæti í Hattarliðinu fyllir í vetur Marcus Van, rúmlega tveggja metra bandarískur miðvörður. Sá hefur spilað víða um Evrópu, meðal annars með Njarðvík í úrvalsdeildinni tímabilið 2012-13.

Þá hefur liðið fengið til sín tveggja metra króatískan framherja, Matej Karlovic. Landi hans Dino Stipcic, sem spilaði með liðinu seinni hluta síðasta tímabils, er áfram hjá liðinu og David Ramos, sem sleit krossband í hné um miðja leiktíð er orðinn heill aftur og verður með í vetur.

„Síðan eru nokkrir leikmenn að ganga upp úr yngri flokkunum. Kjarninn í hópnum eru strákar sem alist hafa upp hjá félaginu og svo eru erlendir leikmenn fengnir til að styrkja liðið.“

Uppsveifla í kringum liðið

Liðið hefur spilað sex leiki á undirbúningstímabilinu, tvo leiki við Tindastól og svo við Þór Akureyri, Njarðvík, Þór Þorlákshöfn, Sindra og varalið Fjölnis. Öll liðin utan Sindra eru úr efstu deild og segir Viðar Örn að frammistaða Hattarliðsins hafi almennt verði ágæt í leikjunum.

Hornafjarðarliðið er svo, eins og í fyrra, fyrsti mótherji vetrarins. Sindraliðið tapaði gegn Hamri um síðustu helgi. Höttur sat hins vegar hjá því liðin í deildinni í vetur eru níu, í stað átta áður. Það þýðir líka að liðin leika 24 leiki í stað 21 í fyrra.

„Við erum spenntir fyrir okkar fyrsta leik, þótt flest önnur lið séu að spila sinn annan leik. Ég held það hafi verið fínt að sitja hjá í fyrstu umferð. Það fækkar hléunum inni í tímabilinu um eitt. Við fengum aukaviku til að undirbúa okkur sem ég held að hafi verið kærkomið.“

Viðar segir að einnig hafi verið unnið að þróun umgjörðarinnar í kringum liðið. Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar hafi eflst, útsendingar frá heimaleikjum verði í betri gæðum og leikjum þar lýst. Að auki ber heimavöllur liðsins í vetur nafnið VHE höllin. „Við erum þakklátir þeim fyrirtækjum sem standa með okkur. Það er fín uppsveifla í kringum liðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.