Körfubolti: Haukar kláruðu Hött í fyrsta leikhluta

Höttur tapaði í gærkvöldi 83-97 fyrir Haukum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, en liðin fylgdust að upp úr fyrstu deildinni í fyrra. Haukar skutu Hött í kaf í fyrsta leikhluta.

Haukar gáfu tóninn með að hitta úr þremur fyrstu skotum sínum og komast í 0-8. Þeir héldu síðan áfram fyrstu sjö mínútur leiksins þar sem aðeins ein skottilraun geigaði. Eftir það dró aðeins úr þeirra nýtingu auk þess sem Höttur byrjaði að hitta. Staðan að fyrsta leikhluta loknum var 19-33.

Höttur náði um tíma, snemma í öðrum leikhluta, að koma muninum undir tíu stig. Til að gera langa sögu stutta þá komst liðið aldrei nær, var 42-56 undir í hálfleik og 59-74 eftir þriðja leikhluta.

Einna gleðilegast fyrir Hött í leiknum var að hinn 16 ára gamli Oliver Árni Ólafsson setti niður þriggja stiga körfu, sem jafnframt var síðasta karfa leiksins. Þetta var fyrsta karfa Olivers úr opnum leik í meistaraflokki. Juan Luis var annars stigahæstur Hattarmanna með 21 stig.

Höttur spilar næst gegn Val í undanúrslitum bikarkeppninnar á miðvikudagskvöld. „Ég neita að trúa því að við höfum verið komnir með hugann þangað. Við erum í gríðarlega jafnri deild og ég upplifði tilhlökkun fyrir fyrsta leik ársins áður en hann hófst.

Ég veit að við Viðar (Örn Hafsteinsson) erum ekki einu mennirnir sem erum ósáttir. Hver einn og einasti leikmaður er ósáttur við frammistöðu sem þessa í heimaleik sem skiptir máli. Við höfum ekkert rætt bikarleikinn í þessari viku,” sagði Einar Árni Jóhannsson, annar þjálfara Hattar, eftir leikinn.

„Næstu dagar verða hefðbundnir, við nálgumst þann leik ekki öðruvísi en deildarleikina. Það er ekki langt síðan við spiluðum við Val. Það er geysiöflugt lið, það jafnbesta ásamt Keflavík í vetur. Við gerum okkur grein fyrir að við þurfum allt, allt annað stig af körfubolta í Laugardalshöllinni en við buðum upp á hér í kvöld.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.