Körfubolti: Góður leikur dugði ekki gegn Val

Höttur háir áfram harða baráttu um sæti í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfuknattleik. Góður leikur dugði ekki til að leggja topplið Vals á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Fyrsti leikhluti var ljómandi skemmtilegur. Valsmenn tróðu boltanum oftar en einu sinni í körfuna meðan Hattarmenn hittu vel utan þriggja stiga línunnar. Það virtist vera upplegg Hattar, að skjóta fyrir utan línuna.

„Valur er ofboðslega gott varnarlið og það verður að nýta það litla sem þeir gefa,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.

Eftir fyrsta leikhluta var Höttur yfir, 26-23. Annar leikhluti þróaðist með svipuðum hætti. Höttur hélt áfram rúmlega 50% nýtni sinni fyrir utan þriggja stiga línuna. Valur elti áfram og í hálfleik munaði áfram þremur stigum, Höttur var yfir 49-46.

Það var þegar á leið þriðja leikhluta sem leikurinn fór að snúast gestunum í vil. Þar munaði mestu um varnarleikinn, Valsmenn náðu að þrengja það svæði sem skyttur Hattar höfðu til að athafna sig þannig skotin fóru að geiga. Seinni hluta leikhlutans náði Valur 5-16 kafla og var þar með kominn yfir, 65-70.

Fjórði leikhluti hófst á mikilli sýningu, í fjórum fyrstu sóknunum setti hvort lið tvær þriggja stiga körfur. En síðan fór leikurinn að færast í fyrra horf, Valsvörnin hélt og þótt sóknin væri ekki stórkostleg þá mallaði hún áfram. Höttur kom muninum niður í 74-76 en þá komu tvær þriggja stiga körfur frá Kristni Pálssyni sem í raun gerðu út um leikinn. „Þetta veltur á því að þeir setja góð skot undir lokin. Þetta voru litlu hlutirnir. Mér fannst við góðir í kvöld,“ sagði Viðar.

Buskey og Karlovic vonandi heilir eftir hlé


Höttur lék í gærkvöldi án Bandaríkjamannsins Deontaye Buskey, sem handarbrotnaði á æfingu síðasta sunnudag. Þá hefur Matej Karlovic ekki getað spilað frá því í byrjun desember en hann meiddist á baki í umferðarslysi á leið í útileik. Höttur saknaði þeirra, sérstaklega þegar leið á leikinn og aðrir leikmenn þreyttust. Þriggja vikna frí er nú í deildinni vegna landsleikja og er vonast til að þeir verði báðir leikfærir eftir það.

Obie Trotter átti frábæran leik fyrir Hött, skoraði 23 stig, þar af 21 úr þriggja stiga skotum og tók 7 fráköst. Adam Eiður Ásgeirsson skoraði 18 stig, Gustav Suhr-Jessen 17 og Nemanja Knezevic 14. Hann tók einnig 14 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Höttur er nú í 8. sæti deildarinnar með 18 stig líkt og Tindastóll en liðin hafa tveggja stiga forskot á Stjörnuna í 9. sæti. Höttur á leik inni þar sem leik liðsins gegn Keflavík í síðustu viku var frestað vegna orkuvandamála á Reykjanesi. Höttur á eftir leiki við þau lið sem eru næst því að stigum: Álftanes, Stjörnuna, Tindastól og Hauka.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.