Knattspyrna: Vice Kendes afgreiddi Víking Ólafsvík

Knattspyrnufélag Austfjarða heldur áfram í toppbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Víkingi Ólafsvík á heimavelli um helgina. Línur eru teknar að skýrast í deildinni eftir tvær umferðir í nýliðinni viku.

KFA komst yfir gegn Víkingi á 17. mínútu og þannig var í hálfleik. Eftir miðjan seinni hálfleik dró til tíðinda.

Fyrst fengu þeir Ingigo Albizuri frá KFA og Daði Kárason frá Víkingi sitt rauða spjaldið hvor á 69. mínútu. Síðan jöfnuðu gestirnir úr víti á 77. mínútu. Vice Kendes kom KFA yfir strax á 79. mínútu og á 85. mínútu bætti hann við öðru marki.

KFA gerði 1-1 jafntefli við Völsung á Húsavík fyrr í vikunni. Esteban Selpa kom KFA yfir á 38. mínútu en heimaliðið jafnaði á áttundu mínútu uppbótartíma. Þá vann Höttur/Huginn Sindra 1-0 í fyrsta leik sumarsins á Vilhjálmsvelli. Alberto Lopez skoraði markið á 20. mínútu.

Um helgina tapaði liðið hins vegar 3-1 fyrir Fjallabyggð. Heimamenn komust yfir um miðjan fyrri hálfleik en á 39. mínútu fékk Brynjar Þorri Magnússon rautt spjald. Fjallabyggð bætti við marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Almar Daði Jónsson minnkaði muninn á 63. mínútu en heimaliðið átti enn eitt mark eftir.

Austfjarðaliðin eru í sitt hvorum hluta deildarinnar sem skiptist milli 5. og 6. sætis en fimm stigum munar þar á milli. KFA er í fjórða sæti með 13 stig úr sjö leikjum, tveimur stigum frá toppliðið KFG. Höttur/Huginn er í 7. sæti með átta stig, þremur meira en botnlið Sindra.

Spyrnir skoraði sjö mörk gegn Afríku


Spyrnir spilaði líka tvo leiki, báða um helgina, í fimmtu deildinni. Á laugardag gerði liðið 1-1 jafntetefli við Berserki/Mídas. Heiðar Logi Jónsson jafnaði á 78. mínútu, skömmu efir að Spyrnir lenti undir.

Í gær vann liðið Afríku 0-7. Jakob Jóel Þórarinsson skoraði þrjú mörk, Heiðar Logi tvö og þeir Róbert Þormar Skarphéðinsson og Gísli Björn Helgason sitt markið hvor. Spyrnir er sem stendur í öðru sæti með 10 stig úr sex leikjum en önnur lið eiga 1-2 leiki til góða.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL gegn Fram á útivelli, 3-2. FHL lenti undir en jafnaði með sjálfsmarki og komst svo yfir fyrir leikhlé þegar Rósey Björgvinsdóttir skoraði eftir hornspyrnu. Fram jafnaði snemma í seinni hálfleik og skoraði sigurmarkið á lokamínútu venjulegs leiktíma. FHL er í sjöunda sæti með sex stig.

Mynd: Jón Guðmundsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar