Knattspyrna: KFA áfram með fullt hús í Lengjubikarnum

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur unnið alla þrjá leiki sína í B-deild Lengjubikars karla það sem af er. Marteinn Már Sverrisson skoraði þrennu í sigri á Dalvík/Reyni um síðustu helgi. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann einn og tapaði einum í suðurferð í Lengjubikar kvenna.

KFA lenti undir gegn Dalvík/Reyni strax á fimmtu mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Marteinn Már skoraði sitt fyrsta mark og jafnaði leikinn úr vítaspyrnu á 57. mínútu og kom KFA yfir á 77. mínútu. Povilas Krasnovskis kom KFA í 3-1 þremur mínútum síðar.

Þröstur Mikael Jónasson skoraði sitt annað mark á 82. mínútu og minnkaði muninn í 3-2. Einum gestanna var vikið af velli snemma í uppbótartíma vegna tveggja gulra spjalda og í kjölfarið fullkomnaði Marteinn Már þrennuna.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir spilaði tvo leiki í Lengjudeild kvenna á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Liðið byrjaði á að vinna Augnablik 1-2. Katrín Edda Jónsdóttir skoraði bæði mörk, annars vegar á 26. mínútu, hins vegar 50. Á sunnudag tapaði liðið 2-0 fyrir Fylki þar sem bæði mörkin komu í seinni hálfleik.

KFA mætir Fjallabyggð um helgina og Höttur/Huginn Dalvík/Reyni í B-deild karla. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir spilar heima gegn Gróttu. Spyrnir hefur dregið sig úr keppni í C-deild karla, án þess að hafa náð að spila leik.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.