Knattspyrna: Einherji og KFA með sigra helgarinnar

Knattspyrnufélag Austfjarða og Einherji voru þau austfirsku lið sem lögðu mótherja sína í Íslandsmótinu í knattspyrnu um síðustu helgi. KFA er ósigrað eftir þrjá leiki. Óveður hafði áhrif á tímasetningar leikjanna.

KFA vann KV 2-0 í Fjarðabyggðarhöllinni í gær í annarri deild karla. Mörkin komu með mínútu millibili. Povilas Krasnovskis skoraði á 16 mínútu og Danilo Milenkovic strax í kjölfarið. KFA hefur unnið tvo og gert eitt jafntefli í fyrstu þremur umferðunum.

Höttur/Huginn tapaði 2-1 fyrir KFG í Garðabæ. KFG var yfir í hálfleik en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði á 52. mínútu. Sigurmarkið kom fimm mínútum fyrir leikslok. Eftir það syrti svo verulega í álinn þegar tveir leikmenn Hattar/Hugins fengu rautt spjald. Fyrst André Musa fyrir olnbogaskot og síðan Dani Ndi fyrir leikbrot.

Báðir leikirnir voru leiknir í gær þar sem ekkert var flogið á laugardag vegna hvassviðris.

Í fimmtu deild karla tapaði Spyrnir 2-1 fyrir Smára á útivelli. Heiðar Logi Jónsson jafnaði fyrir Spyrni á 25. mínútu en sigurmarkið kom tíu mínútum fyrir leikslok.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL 4-1 fyrir Víkingi í gær. Sofia Lewis minnkaði muninn í 2-1 snemma í seinni hálfleik fyrir FHL. Á fimmtudag spilaði FHL við HK á heimavelli en beið lægri hlut 1-2. Natalie Cooke kom FHL yfir rétt fyrir leikhlé en HK jafnaði á 87. mínútu og skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Eftir það fékk Danny El-Hage, aðstoðarþjálfari FHL, rautt spjald fyrir mótmæli.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, var gestur á leiknum og heilsaði upp á leikmenn og forráðafólk FHL áður en hann hófst.

Einherji vann Sindra 5-0 á Vopnafirði í annarri deild kvenna. Coni Ion kom Einherja yfir strax á fimmtu mínútu. Þær Violeta Mitul, Karólína Dröfn Jónsdóttir, Viktória Szeles og Oddný Karólína Hafsteinsdóttir bættu við mörkum í seinni hálfleik. Á miðvikudag tapaði liðið hins vegar 1-0 fyrir toppliði ÍA á Akranesi. Einherji er í fjórða sæti eftir fjóra leiki.

Vanda, önnur frá vinstri, heilsar upp á Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliða FHL og Björgu Gunnlaugsdóttur, leikmann í fylgd Hugrúnar Hjálmarsdóttur, forráðamanns félagsins. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.