KFF: Góð þróun að fá yngri mann í þjálfunina

Image Heimir Þorsteinsson, sem þjálfar karlalið Fjarðabyggðar í annarri deildinni í knattspyrnu á næstu leiktíð með Hauki Ingvari Sigurbergssyni, segir það góða þróun að fá yngri mann inn í þjálfunina. Hann reiknar ekki með miklum breytingum á leikmannahópnum þótt alltaf færi sig einhverjir leikmenn um set þegar lið fari á milli deilda.

 

„Mér líst vel á að vinna með Hauki. Ég tel hann réttu manngerðina í starfið og það er góð þróun að fá yngri mann inn í þjálfun. Hann er í Reykjavík og ég fyrir austan þannig við höfum bara ræðst við í síma. Við tökum allar ákvarðanir saman. Hann verður áfram leikmaður og í sjálfum leiknum verður hann með sinn fókus sem leikmaður og ég sem þjálfari,“ segir Heimir en hann stýrði liðinu seinustu tvö sumur ásamt Páli Guðlaugssyni.

Litlar breytingar á leikmannahópi


Fjarðabyggð féll úr 1. deild í sumar. Við slík tímamót verða oft breytingar á leikmannahópum en hjá Fjarðabyggð stefna menn á að halda sem flestum lykilmönnum. Stefnan er sem fyrr að keyra á heimamönnum úr öflugu yngri flokka starfi. Við bætist Haukur sem missti af sumrinum vegna meiðsla.

„Við fórum strax í að tala við menn og vitum um nokkuð marga sem ætla að vera þótt 2-3 mál séu óleyst. Það verða alltaf breytingar þegar lið fara niður á milli deilda. Yngri strákarnir eru orðnir sumrinu reyndari og þeir eldri vilja kvitta fyrir það sem gerðist. Það var þeim högg. Haukur Ingvar kemur inn sem nýr leikmaður, hann hefur verið gangverk liðsins í mörg ár. Ég á ekki von á að margir fari en það eru alltaf einhverjir sem vilja spreyta sig annars staðar.“

Þakklátur Rajko fyrir þjónustuna

Ein undantekning er þó þar á, markvörðurinn Srdjan Rajkovic mun leika með Þór Akureyri sem fór upp úr fyrstu deildina í úrvalsdeildina í sumar. Rajko hefur verið nær óslitið í Fjarðabyggð í rúman áratug og vart misst úr leik allan þann tíma en hann hefur leikið yfir 200 meistaraflokksleiki fyrir félagið. Hann var fyrirliði liðsins í sumar, í fjarveru Hauks og var valinn besti leikmaður ársins. Heimir segist þakklátur Rajko fyrir áralanga þjónustu hans við félagið.

„Við stöndum í mikilli þakkarskuld við hann, það eru fáir leikmenn sem hafa haft jafn mikil áhrif á Fjarðabyggð og Rajko. Við höfum haft hann í fyrstu, annarri og þriðju deild og hann verið einn af bestu markvörðum landsins að mínu mati. Honum hefur oft verið boðið að koma í úrvalsdeildina en haldið tryggð við okkur. Hann dreymdi um að fara upp með okkur sumarið 2009 og varð mjög sár þegar það tókst ekki.

Strangt til tekið kemur mér ekki á óvart að hann ætli að kýla á þetta núna. Hann er orðinn 34ra ára gamall og þetta fer að verða síðasti séns fyrir hann.

Við erum í nýrri stöðu, við höfum ekki áður þurft að leita að markverði og það er missir af Rajko sem leikmanni og félaga. Leit okkar er þegar hafin en hún verður ekki auðveld.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.