Iðkendur innan UÍA ánægðir með starfið

dr_vidar_0002_web.jpg Tæp 90% iðkenda innan aðildarfélaga UÍA í 8. – 10. bekk segja að vanalega sé gaman á æfingum. Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur aukist verulega undanfarin tuttugu ár. Hún skilar bættri líðan ungmennanna. 
 
Þetta kom fram í niðurstöðum Ánægjuvogarinnar sem Dr. Viðar Halldórsson kynnti á opnum fundi sem UÍA, UMFÍ og ÍSÍ stóðu fyrir á Egilsstöðum í síðustu viku. 

89% svarenda á sambandssvæði UÍA sögðust sammála eða mjög sammála fullyrðingunni um að vanalega væri gaman á æfingum. Á landsvísu voru það 86%. Aðeins 6% sögðust ósammála fullyrðingunni og 5% svöruðu hvorki né.

85% sögðust ánægð með starf íþróttafélagsins, 84% ánægð með þjálfarann og 76% voru ánægð með aðstöðuna. Niðurstöðurnar eru svipaðar og á landsvísu.

Reykja og drekka síður

Reykingar, drykkja, og notkun munntóbaks og hass virðist einnig fátíðari meðal þeirra sem æfa íþróttir innan skipulagðra íþróttafélaga. Á landsvísu sögðust til dæmis 1,9% þeirra sem stunda æfingar innan félaga hafa orðið drukkin undanfarna 30 daga en 7,6% þeirra sem stunda aðrar íþróttir og 5,9% þeirra sem engra íþróttir stunda. „Það er munur á milli skipulagða starfsins og þess óskipulagða. Við getum því ekki sagt að allar íþróttir séu hollar,“ sagði Dr. Viðar.

Tilhneigingin var sú sama meðal annarra vímugjafa. Dr. Viðar benti á að undanfarin ár hefði munntóbaksnotkun verið svipuðu í öllum þremur flokkunum en nú sæist loks munur á þar sem hún væri minni meðal íþróttaiðkendanna.

Tölurnar voru svipaðar innan UÍA nema ívið lægri. Tvö prósent þeirra sem ekki stunduðu íþróttir sögðust reykja daglega en enginn þeirra sem æfði reglulega. Eina undantekningin var drykkjan. 4% þeirra sem stunduðu íþróttir reglulega sögðust hafa orðið drukkin einhvern tíman á síðustu 30 dögum en 5% þeirra sem æfðu.

Engar sérstakar skýringar voru gefnar á þessari niðurstöðu en Dr. Viðar varaði við að breytan væri viðkvæm fyrir sveiflum en til dæmis spurningin um reykingarnar. „Það þarf ekki nema eitt stórt partý.“

Færri stunda íþróttir eystra en annars staðar

Færri virðast samt stunda íþróttir innan austfirskra íþróttafélaga heldur en á landsvísu. 40,8% á UÍA svæðinu sögðust nær aldrei æfa íþróttir með íþróttafélagi samanborið við 34% á landsvísu. Þá æfa 10,6% innan UÍA sex sinnum eða oftar í viku samanborið við 18,4% á landsvísu.

Breytingin yfir landið er samt mikil á tuttugu árum. Árið 1992 sögðust 59,7% nær aldrei stunda skipulagðar íþróttaæfingar en rétt rúm 40% nú. Þá segjast 38% stunda æfingar fjórum sinnum í viku eða oftar en voru 17,2% áður.

„Þrátt fyrir alla þá samkeppni sem er um athygli og afþreyingu eru 20% fleiri í skipulögðu íþróttastarfi í dag en fyrir tuttugu árum,“ sagði Dr. Viðar og lagði áherslu á að menn nýttu sér tækifærin til góðs.

„Ef þið eruð með 40% af krökkunum inni á gólfi hjá ykkur á hverjum degi þá hafið þið svakaleg tækifæri til að hafa góð áhrif á þau og innræta þeim þau gildi sem hreyfingin byggir á. Hreyfingin er með krakkana á þeirra mótunarárum og þau koma mjög opin inn í starfið.“

dr_vidar_0005_web.jpg
Innbyrðistengsl foreldra mikilvæg

Niðurstöður rannsókna síðustu ára sýna að jákvæð fylgni er milli íþróttaiðkunar, vímuefnanotkunar, námsárangurs og andlegrar líðunar. Sambandið hefur ekki tekist að skýra út frá öðrum breytum en íþróttaiðkuninni.

„Við sjáum að líkur á vímuefnanotkun er minni ef foreldrarnir í starfinu þekkjast. Út frá þessu vitum við að vinnan í nærsamfélaginu skilar árangri. Í hinu skipulagða íþróttastarfi felst taumhald, reglur og skilaboð um heilbrigðan lífsstíl.“

Árangur virðist hafa náðst í að sporna gegn vímuefnanotkun í efstu bekkjum grunnskólanna. Hlutfall þeirra sem hafði orðið drukkinn undanfarna 30 daga var yfir 40% meðal tíundu bekkinga árið 1992 en er nú komið niður í 7%. 

„Það er búið að setja mikla vinnu í grunnskólakrakkana undanfarin tuttugu ár og tala menn um að setja þurfi vinnu í framhaldsskólana. Menn spyrja hvort við séum bara að seinka neyslunni.“

Brottfallið þarf ekki að vera slæmt

Ástæður fyrir brottfalli úr íþróttum eru svipaðar innan UÍA og annars staðar. 67% á svæðinu segjast hafa misst áhugann en 72% á landsvísu. 

Viðar segir að ráðast þurfi í ítarlegri greiningar á brottfalli eftir bæði greinum og kynjum. Hann undirstrikaði þó að brottfallið þurfi ekki að vera af því slæma.

„Við erum kannski að tala um barn sem er búið að vera í sömu greininni frá því að foreldrarnir skikkuðu það á æfingar 4-5 ára gamalt og að lokum segir það: „Þetta er leiðinlegt!“ og fer að gera eitthvað annað. Menn hafa áhyggjur af hópnum sem hættir og finnir sig hvergi annars staðar. Það er hópurinn sem sækir í áhættuhegðun.“

Hvort viltu vera bestur fjórtán eða tuttugu ára?

Þá voru í rannsókninni kannað álit krakkanna á áherslur þjálfara svo sem á sigur í keppni, drengilega framkomu og heilbrigt lífernu. Á sambandssvæði UÍA virtust 38% þjálfara leggja áherslu á sigur samanborið við 40% á landsvísu. 

Að mati dr. Viðars er áherslan á sigurinn ekki „endilega jákvæð. Er það eitthvað markmið eða lykilatriði að 12-13 ára krakkar séu að vinna mót?“ spurði hann og svaraði svo sjálfur: „Mín skoðun er: nei,“ og vísaði í dæmi frá spænska knattspyrnuliðinu Barcelona og íslenskum handknattleiksmönnum.

„Þeir sem ná mestum árangri hafa ekki þetta upplegg. Barcelona leggur enga áherslu á að vinnan nein mót fyrir þrettán ára aldurinn. Þar eru menn að kenna leikmönnunum gildi og styrkja þá sem karaktera.

Boris Bjarni, sem þjálfaði alla bestu íslensku handboltamennina, bauð þeim þegar þeir voru um fermingaraldurinn hvort þeir vildu verða bestir 14 ára eða 20 ára. Þeir yrðu ekki hvort tveggja. Sá sem vill verða bestur tuttugu ára þarf að bæta tæknina og það tekur tíma.“

Gefa þarf börnunum tíma til að ná tökum á nýrri tækni. „Leikmaður sem er að þróa nýja tækni, sem að lokum verður betri en sú gamla, verður að fá tíma þótt illa gangi í fyrstu. Sé hann skammaður strax hættir hann að þróa sig, fer aftur í gömlu tæknina og staðnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.