Haraldur annar á Íslandsmótinu í bogfimi

Haraldur Gústafsson úr Skotfélagi Austurlands varð annar á Íslandsmótinu í bogfimi utandyra eftir tvöfaldan bráðabana í úrslitum.

Haraldur, sem varð Íslandsmeistari síðustu tvö ár, fór í úrslit á móti Oliver Ormari Ingvarssyni úr Boganum í Kópavogi.

Eftir jafntefli í úrslitaleiknum sjálfum, 5-5, tók við bráðabani þar sem hvor keppandi skýtur einni ör á skotskífuna og vinnur sá sem er nær miðjunni. Í fyrstu tilraun urðu örvar þeirra jafn langt frá miðjunni. Því varð að skjóta aftur og í það skiptið fór Oliver nær.

Á mótinu varð Haraldur einnig í þriðja sæti í kynlausri keppni. Um er að ræða nýjan flokk til að greiða götu kynsegin einstaklinga innan íþróttarinnar auk þess að opna keppni karla og kvenna.

Mótið var haldið á Hamranesvell í Hafnarfirði fyrr í þessum mánuði og í frétt Bogfimisambandsins segir að aðstæður fyrri daginn hafi verið einhverjar þær verstu sem sést hafi í keppni hérlendis, stormur og rigning þannig að skotmörk fuku og örvar brotnuðu í æfingaumferðum. Undankeppni var frestað meðan mörkin voru fest betur og skotfæralausum keppendum bjargað.

Íslandsmótið í keppni á víðavangi verður haldið á Austurlandi eftir tvær vikur og í lok ágúst verður opna Austurlandsmótið á Eiðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.