Gat ekki réttlætt að horfa á handboltann í brakandi þurrki

 Óhætt er að segja að fátt sameini Íslendinga meira en þegar íslensk landslið taka þátt í stórmótum í handbolta. Leikir karlalandsliðsins í handbolta hafa verið vinsælasta sjónvarpsefnið á Íslandi í fimm ár í röð. Þannig sýna tölur að meira en helmingur þjóðarinnar horfði á leik Íslands og Ungverjalands á heimsmeistaramóti karla í Svíþjóð í byrjun janúar á síðasta ári. Og nú er enn að hefjast stórmót þar sem Ísland er meðal þátttakenda. 

Hjónin Gróa Jóhannsdóttir og Arnaldur Sigurðsson, bændur á Hlíðarenda í Breiðdal, eru meðal fjölmargra Íslendinga sem héldu út í janúar á síðasta ári til að styðja við íslensku strákana. „Við fórum að vísu bara á tvo leiki í milliriðlunum í Gautaborg. Það hefði verið gaman að geta farið á alla leikina en við tókum okkur bara helgi í þetta. Þetta var gamall draumur að rætast. Ég er alin upp við að fylgjast með handbolta, eins og margt fólk til sveita,“ segir Gróa í samtali við blaðamann Austurfréttar. 

Á öðrum fætinum á áhorfendapöllunum

Gróa segir að ferðin og upplifunina af því að sjá landsliðið í fyrra hafi verið alveg hreint meiriháttar. „Það var vísu aðeins erfitt því ég var bara á öðrum fætinum, ég fótbrotnaði skömmu fyrr og var í gifsi og með hækjur, svo að frídaginn milli leikja gerði ég ekkert nema að hanga uppi á hóteli og safna kröftum því ég var svo uppgefin.“

Þau hjón einbeittu sér því fyrst og fremst að handboltanum þessa daga úti í Gautaborg, fóru á stuðningsmannasvæði og síðan upp í íþróttahöll og horfðu þar á alla þrjá leiki hvors dags fyrir sig í beit. 

„Fyrri leikur íslenska liðsins var við Svía, heimamennina. Við töpuðum þeim leik að vísu, en stemningin var alveg geggjuð enda Svíar á heimavelli og í augum þeirra var þetta bara leikurinn. 

Seinni leikurinn var við Brasilíu og við unnum hann en því miður skipti hann ekki öllu máli því það var orðið ljóst að við kæmumst ekki upp úr milliriðlinum. En þetta var samt alveg æðislega gaman,“ segir Gróa. 

Segir mikinn áhuga til sveita

Spurð hvort hún hafi alltaf verið svona mikill aðdáandi handboltalandsliðsins játar Gróa því. „Ég fer að fylgjast með þessu bara um leið og beinu útsendingarnar byrja í sjónvarpi, ætli það hafi ekki verið á Ólympíuleikunum 1984 í Los Angeles. Ég man líka eftir því að hafa hlustað á beinar lýsingar í útvarpinu, áður en beinu útsendingarnar byrjuðu í sjónvarpi. Þetta er bara búið að fylgja mér alla tíð frá því við byrjuðum að komast á stórmót.“

Eins og komið er inn á hér í upphafi er fátt sem sameinar íslensku þjóðina eins mikið og handboltinn. Alls konar fólk, sem alla jafna sinnir íþróttaáhorfi takmarkað, er límt við skjáinn, getur rakið ættir landsliðsmanna aftur í sjöunda lið og hefur miklar skoðanir á leikjum, uppleggi þjálfara og frammistöðu dómara. Gróa segir að hún telji að þessi áhugi sé ekki síst mikill til sveita. „Hann er mjög mikill, það sem ég þekki til. Ég elst upp að hluta til á Mýrunum og þar held ég að flestir fylgist mjög vel og þegar ég flutti austur 1986 fannst mér ég finna fyrir sama áhuga hér líka.“

Útvarpið í gamla Zetor brást

Gróa missir nánast ekki af leik með karlalandsliðinu en man þó eftir einum leik sem hún ekki sá. „Það var leikur á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 en þeir fóru fram í lok júlí og byrjun ágúst. Þennan dag var brakandi þurrkur og ég gat ekki réttlætt það fyrir sjálfri mér að sitja inni í þurrki í miðri heyskapartíð. Ég man að það var gamalt útvarp í Zetornum og ég var að reyna að hlusta meðan ég rakaði, en það náðist því miður alls ekki vel,“ segir hún hlæjandi. 

Spurð hvort hún eigi sér uppáhaldslandsliðsmann allra tíma segir Gróa að þeir séu margir. „Það er náttúrulega Óli Stef og svo Alfreð Gísla, mér detta þeir fyrst í hug. Í liðinu núna þá held ég það sé Viktor Gísli [Hallgrímsson, markvörður], þegar hann kemst í gang þá elskar maður hann. Ef það gengur ekki hjá honum þá bölvar maður vörninni því að markvarslan kemur með vörninni.“

Snorri Steinn á skilið að við vinnum Ungverja

Gróa segist spennt fyrir mótinu sem framundan er, en Ísland hefur leik á morgun klukkan 17:00, þegar liðið mæti Serbum í Ólympíuhöllinni í München. „En ég spyr mig: Af hverju fáum við alltaf Ungverja og af hverju töpum við alltaf fyrir þeim? Snorri Steinn [Guðjónsson, þjálfari íslenska liðsins] á það núna inni að við vinnum Ungverja, eftir að hann klúðraði vítakastinu gegn þeim greyið. Það var rosalega erfitt.“

Gróa er þarna að vísa til grátlegs taps íslenska landsliðsins gegn Ungverjum á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012, þar sem Ísland var í dauðafæri á að leika um verðlaun. Íslenska liðið fékk vítakast undir lok leiksins í stöðunni 26-27 fyrir Ísland, en leikurinn var í 8-liða úrslitum. Snorri Steinn steig á vítapunktinn en markvörður Ungverja, Nándor Fazekas, varði vítakasið. Ungverjar brunuðu í sókn, jöfnuðu leikinn og unnu svo í tvíframlengdum leik með einu marki. 

En aftur að Evrópumótinu núna. Íslenska liðið er skipað ungum, en þó reynslumiklum leikmönnum, sem eru margir hverjir á heimsmælikvarða í sínum stöðum. Nægir þar að nefna nýkjörinn íþróttamann árins, Gísla Þorgeir Kristjánsson, sem fór hamförum með liði sínu Magdeburg í Þýskalandi í fyrra, var valinn leikmaður ársins í Þýskalandi og mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem Magdeburg sigraði, ekki síst fyrir tilstilli Gísla sem lék sjálfan úrslitaleikinn þrátt fyrir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleiknum degi áður. Gísli Þorgeir er sonur Kristjáns Arasonar stórskyttu sem var einn burðarása landsliðsins árum saman.

Fer snemma í fjárhúsin

Gróa segir að hún telji möguleika Íslands góða. „Ég held það, ef við komumst upp úr riðlinum geti allt gerst. Hann er svolítið snúinn en við eigum að geta unnið þessi lið. Ég held að við ættum að geta komist langt. Ég vonast til að við náum Ólympíusæti hið minnsta.“

Spurð hvort hún haldi að hún muni aftur fara út á stórmót svarar Gróa af mikilli festu. „Ekki spurning. Þetta var HM í fyrra og ég ætla að fara á EM líka, hvenær sem það verður. Ég veit að ég á eftir að vera með kökkinn í hálsinum þegar leikurinn byrjar annað kvöld, yfir að vera ekki úti. Ég veit að ef við komumst í milliriðlana verð ég alveg friðlaus. Ég ætla samt ekki að fara, en ég hugsa að ef við komust áfram í milliriðla fari ég samt að skoða ferðir út. Ef einhver hefur samband við mig og segir: Eigum við ekki að fara? Þá væri ofsalega erfitt að segja nei.“ 

Spurð hvernig hún muni horfa á leikina segir Gróa að hún ætli nú bara að horfa í stofunni heima. „Ég ætla bara að vera búin í fjárhúsunum nógu snemma til að komast inn vel fyrir fimm. Ég fer líka í landsliðstreyjuna, þó ég sitji bara heima.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.