Fótbolti: „Vissum að við myndum skora mörk“

Fáskrúðsfirðingar geta leyft sér að fagna í kvöld eftir að Leiknir tryggði sér sigur í annarri deild karla í knattspyrnu og þar með sæti í fyrstu deild næsta sumar með 1-3 sigri á Fjarðabyggð í dag. Leiknismenn þurftu að hafa fyrir sigrinum eftir að hafa verið undir í hálfleik en þjálfarinn og fyrirliðinn voru sammála um að sigurinn væri samt innan seilingar.

„Mér fannst við vera með þennan leik frá fyrstu mínútu. Það hefði verið sanngjarnt að við hefðum verið 6 eða 7-1 yfir í hálfleik. Við vorum miklu betri,“ sagði Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis eftir leikinn.

Leiknir þurfti að vinna til að tryggja sér sæti í fyrstu deildinni að ári. Fjarðabyggð komst yfir um miðjan fyrri hálfleik, gegn gangi leiksins og þrátt fyrir að Leiknismenn fengu fjölda góðra færa tókst þeim ekki að jafna fyrir leikhlé.

„Við vorum sammála um það í leikhléinu að við værum með þennan leik. Við ræddum um að fara rólega. Við myndum skora mörk, spurningin væri bara hvenær,“ sagði Brynjar.

Leiknir jafnaði strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks. „Já, það var þægilegra fyrir hjartsláttinn og blóðþrýstinginn að jafna snemma.“

Leiknir komst svo yfir yfir eftir kortér. Eftir það hafði liðið tök á leiknum þótt þriðja markið kæmi ekki fyrr en fimm mínútum fyrir leikslok og innsiglaði sigur sinn í deildinni, en liðið hefur verið í efsta sætinu lungann úr sumrinu.

„Við höfum verið mjög góðir í sumar og strákarnir eiga þetta sannarlega skilið. Þeir eru góðir í fótbolta, það er forsenda árangursins. Þjálfarinn getur haft flotta hugmyndafræði en hann þarf leikmenn til að framfylgja henni.“

„Stefndum alltaf upp“

Arek Grzelak, fyrirliði Leiknis, tók á móti bikarnum. „Það var frábær tilfinning að taka á móti fyrsta titli Leiknis. Svona viljum við hafa þetta,“ sagði hann.

Í spá þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni var Leikni spáð næst neðsta sætinu og falli. Það var skiljanlegt eftir að liðið slapp aðeins frá falli í lokaumferðinni í fyrra en Leiknismenn höfðu aðrar hugmyndir.

„Án gríns þá stefndum við alltaf upp þótt liðin í kringum okkur tryðu því ekki. Við vorum ekki í jafn góðu formi í fyrra, í ár vorum við meira tilbúnir að berjast fyrir einstaklinginn og það gerði gæfumuninn.“

Hann segir liðið aldrei hafa örvænt þótt það lenti undir en vissulega hefði hjálpað verulega að jafna strax í byrjun seinni hálfleiks.

„Það var stress í mönnum fyrstu mínútur leiksins, eins og gerist í úrslitaleikjum. Við vorum að venjast grasinu, við höfum spilað flesta okkar leiki inni í Fjarðabyggðarhöllinni á gervigrasi og marga útileiki einnig á gervigrasi.

Við fórum inn í hálfleik með það í hug að við værum betri aðilinn og gætum vel snúið þessum leik við. Það yrði bara sætara. Það gerði gæfumuninn að skora snemma í seinni hálfleik því Fjarðabyggðarliðið var mjög vel skipulagt varnarlega.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.