Fótbolti: Höttur/Huginn var liðið sem lagði KFA

Knattspyrnufélag Austfjarða tapaði sínum fyrsta deildarleik í sumar þegar liðið varð undir 2-1 gegn Hetti/Huginn á Vilhjálmsvelli á laugardag. FHL lagði Augnablik í ótrúlegum leik þar sem ellefu mörk voru skoruð. Kvennalið Einherja er komið í þétta toppbaráttu eftir sex sigurleiki í röð.

Það var Eiður Orri Ragnarsson sem kom Hetti/Huginn yfir á 15. mínútu og Matheus Bettio Gotler skoraði annað mark fjórum mínútum síðar. Bæði lið fengu sín færi áður en William Suarez minnkaði muninn á 78. mínútu þannig í hönd fóru spennandi lokamínútur.

Höttur/Huginn hélt þó forustunni og var þar með fyrsta liðið til að leggja KFA í deildinni í sumar. KFA er samt enn efst í deildinni með 31 stig úr 16 leikjum. Á eftir er þéttur pakki, Dalvík/Reynir er með 29 stig en ÍR í 6. sæti er með 25 stig.

Þar hafa fram að þessu verið skil í deildinni en Höttur/Huginn er nú í 7. sæti með 23 stig. Fimm stig eru síðan niður í Fjallabyggð í 9. sæti þar sem fallbaráttan byrjar fyrir alvöru en liðin við botninn hafa sótt stig að undanförnu.

Höttur/Huginn er því ekki enn laust við fallhættuna en á mikilvægan leik við Sindra á Höfn á miðvikudagskvöld en Hornafjarðarliðið er næst neðst. Á sömu slóðum er Völsungur sem á sama tíma spilar við KFA eystra.

KFA komst annars í síðustu viku í undanúrslit Fotbolti.net bikarsins með 1-2 sigri á Víkingi Ólafsvík á útivelli. Ivan Rodrio og William Suárez skoruðu mörk KFA.

Tímabilið að klárast hjá Spyrni


Í fimmtu deild karla tapaði Spyrnir sínum fimmta leik í röð þegar liðið mætti KFR á Hvolsvelli. Staðan var 2-0 í hálfleik, Valgeir Jökull Brynjarsson minnkaði muninn á 58. mínútu. KFR komst í 3-1 á 79. mínútu en Ívar Logi Jóhannsson minnkaði aftur muninn með marki á 82. mínútu.

Spyrnir var því enn inni í leiknum þegar fjórða mark KFR kom í uppbótartíma. Spyrnir er í 6. sæti B-riðils með 19 stig eftir 14 leiki. Tveir leikir eru eftir af keppninni.

Ellefu mörk í Kópavogi


FHL lagði Augnablik 5-6 í Kópavogi í Lengjudeild kvenna um helgina. Markafjöldinn segir ekki nema hálfa söguna því FHL var tvisvar sinnum í leiknum komið í afar vond mál, eiginlega með tapaðan leik.

Liðið var 3-0 undir eftir hálftíma leik en Jóhanna Lind Stefánsdóttir og Natalie Cooke minnkuðu muninn í 3-2 rétt fyrir leikhlé. Björg Gunnlaugsdóttir jafnaði síðan strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.

Augnablik kemst aftur yfir, í 5-3, þegar 72. mínútur eru liðnar af leiknum. Sofia Lewis minnkaði muninn á 82. mínútu og Natalie jafnaði á 88. mínútu úr vítaspyrnu. Hún skoraði síðan sigurmarkið á 90. mínútu. FHL með 15 stig úr 14 leikjum og sleit sig frá fallsvæðinu með sigrinum.

Sjötti sigur Einherja


Í annarri deild kvenna hefur Einherji flogið upp í þétta toppbaráttu með sex sigrum í röð. Liðið er í 5. sæti með 27 stig en aðeins munar þremur stigum á liðunum í öðru og áttunda sæti.

Sjötti sigurinn vannst á Haukum á Vopnafirði í gær en Hafnafjarðarliðið hefur verið í hópi efstu liðanna í sumar. Gestirnir komust yfir á áttundu mínútu en Claudia Maria Daga Meriono jafnaði á 25. mínútu og Violeta Mitul kom Einherja yfir á 31. mínútur. Claudia skoraði síðan tvö mörk snemma í seinni hálfleik áður en Haukar minnkuðu muninn úr víti á 78. mínútu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar