Foreldrarnir læra líka í stubbaskólanum

Stubbaskóli Jennýjar hefur verið starfræktur í Oddsskarði frá 2011. Þar læra yngstu skíðaiðkendurnir að fóta sig. Þeir draga hins vegar eldri líka með sér.

„Við hvetjum foreldra og eldri systkini til að koma með og fara á skíði. Það er fullt af foreldrum sem hafa lært að standa á skíðum af því að elta okkur og börnin

Foreldrarnir eru duglegir og nauðsynlegir í baráttunni við að koma börnunum á skíðin. Við kennum þeim að þetta snúist ekki bara um að skíða heldur sé þetta líka samvera og útivera,“ segir Jóhann Tryggvason í viðtali við Að Austan á sjónvarpsstöðinni N4.

Jóhann og kona hans Jenný Jörgensen standa að baki Stubbaskólanum. Þar læra börn á aldrinum 2,5-6 ára á skíði. Í vetur hafa 40 börn verið í skólanum í tveimur hópum.

Þau segja börnin fljót að læra að standa á eigin fótum. „Í byrjun erum við bara með þau í fanginu en eftir fyrstu þrjá tímana eru 60-70% farin að fara í lyftuna, þótt þau fari ekki upp á topp. Þetta snýst um að venja þau við að fara í lyftuna til að venja þau við,“ segir Jenný.

Og börnin virðast sannarlega njóta þess að vera á skíðunum. „Það gengur ótrúlega hratt að kenna þeim og þau eru dugleg. Þau kvarta aldrei yfir veðrinu, við gerum það frekar eða foreldrarnir.

Það er ótrúlega gaman að vera með þeim, þau sýna væntumþykju og þakklæti. Einn leiddi mig að lyftunni um daginn og þegar við komum þangað leit hann upp á mig og sagði: „Ég elska þig.“ Það er ekki hægt að fá stærra hrós.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.