Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð takast á í Lífshlaupinu

„Ætli ég reyni ekki að ganga í vinnuna, það er aðeins auðveldara fyrir mig en Pál Björgvin,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, en starfsmenn sveitarfélagsins munu etja kappi við starfsmenn Fjarðabyggðar í Lífshlaupinu næstu þrjár vikur.


Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, en það hefst á morgun miðvikudag og stendur til 20. febrúar. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er.

Starfsmenn á skrifstofum Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs hafa tekið virkan þátt í Lífshlaupinu undanfarin ár, en að þessu sinni mun starfsfólk sveitarfélagana einnig etja kappi sín á milli og sjá hvor vinnustaðurinn hefur betur.

„Þessi hugmynd kom upp hjá starfsfólki beggja sveitarfélaga og er núna komin í framkvæmd. Mér líst mjög vel á þetta og nú er bara að sjá hvað maður verður duglegur að hreyfa sig,“ segir Björn og bætir því við að hann sé það ekki nægilega duglegur við það almennt.

Björn býst við harðri og skemmtilegri keppni. „Það er alltaf líflegt á skrifstofunni í kringum Lífshlaupið, við höfum skipt í lið og tekist hressilega á. Núna munum við ekki aðeins keppa innbyrgðis, heldur einnig þreyta keppni við félaga okkar niður á fjörðum. Hver veit nema það leiði svo af sér fleiri skemmtileg verkefni sem tengjast hreyfingu,“ segir Björn.

Ljósmynd: Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs hittust á dögunum og það var greinilega kominn mikill keppnishugur í þá. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.