Fjórir austfirskir Íslandsmeistarar í frjálsíþróttum

Fjórir keppendur á vegum UÍA hafa að undanförnu orðið Íslandsmeistarar í frjálsíþróttum. Austfirskt íþróttafólk hefur að auki bætt sig verulega á þeim Meistaramótum Íslands í frjálsíþróttum sem búin eru.

Björg Gunnlaugsdóttir varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands 11-14 ára sem haldið var á Laugardalsvelli. Björg, sem keppir í 13 ára aldursflokki, sigraði í 100 metra hlaupi á tímanum 13,57 sekúndur og 600 metra hlaupi á tímanum 1:49,35 mín. Hún varð að auki í öðru sæti í langstökki þar sem hún stökk 4,74 metra. Björg keppti einnig í spjótkasti þar sem hún varð fjórða.

Birna Jóna Sverrisdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 12 ára með kasti upp á 9,42 metra. Birna Jóna keppti einnig í spjótkasti þar sem hún varð fimmta.

Viktor Ívan Vilbergsson hlaut silfurverðlaun í 100 metra hlaupi 14 ára á tímanum 12,86 sek. og fékk brons í 600 metra hlaupi á 1:41,94 mín. Viktor Ívan keppti einnig í langstökki.

Hrafn Sigurðsson varð annar í 600 metra hlaupi 13 ára á tímanum 1:46,06. Hann keppti líka í 100 metra hlaupi.

Hjördís María Sigurðardóttir keppti í langstökki og 100 metra hlaupi 13 ára en hún bætti sinn besta árangur í báðum greinum.

Viku áður varð eldri bróðir hennar, Friðbjörn Árni Sigurðarson Íslandsmeistari í spjótkasti á Meistaramóti 15-22ja ára sem haldið var á Selfossi. Friðbjörn Árni, sem keppir í 15 ára flokki, kastaði spjótinu 37,78 metra. Hann varð einnig annar í sleggjukasti með kasti upp á 29,62 metra.

Á sama móti varð Daði Þór Jóhannsson Íslandsmeistari í hástökki þar hann fór yfir 1,72 metra. Hann varð ennfremur í öðru sæti í langstökki með stökk upp á 6,38 metra og í sama sæti í þrístökki þar sem hann stökk 13,15 metra. Í öllum greinum bætti hann sinn besta árangur.

Verðlaunahafar UÍA á mótinu um helgina. Mynd: Jóney Jónsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar