VG - kosningar - sept 2021

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. upp um deild

Í dag fór fram spennuþrunginn leikur í Fjarðabyggðhöllinni þar sem Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. tók á móti Fram í úrslitakeppni 2. deildar kvenna. Um var að ræða síðari leik liðanna í einvígi um sæti í 1. deild að ári.

Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli svo það var allt í járnum þegar flautað var til leiks í dag. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. vann einvígið með góðum 3-0 sigri í dag og mun því leika í 1. deildinni að ári.


Fyrsta mark leiksins kom eftir um ellefu mínútna leik. Bayleigh Ann Chaviers átti þá fína sendingu inn í teig frá vinstri kanti sem féll fyrir fætur Björgu Gunnlaugsdóttur sem tók vel á móti honum og lyfti honum smekklega yfir Anne Elizabeth Bailey í marki Fram.


F/H/L fékk tækifæri á 38. mínútu til að koma sér í þægilega forystu þegar Bayleigh Ann Chaviers átti flottan sprett upp völlinn sem lauk með því að Halla Helgadóttir, fyrirliði Fram, gerðist brotleg í vítateig Fram og Tómas Meyer, dómari leiksins, ekki í vafa þegar hann benti á vítapunktinn. Hafdís Ágústsdóttir fór á punktinn fyrir F/H/L en brenndi af vítaspyrnunni. Staðan var því enn 1-0 þegar flautað var til hálfleiks skömmu síðar.


Á 59. mínútu bætti F/H/L við öðru marki sínu en þar var á ferðinni hinn lúsiðni framherji Freyja Karín Þorvarðardóttir, markahæsti leikmaður 2. deildar í ár. Hún vann boltann af Sólveigu Birtu Eiðsdóttur úti á vinstri kanti, komst framhjá Ólöfu Ragnarsdóttur og inn í teig Fram þar sem hún skoraði með flottu skoti.


F/H/L gulltrygði síðan góðan sigur á lokamínútu leiksins þegar Barbara Kopácsi átti fína sendingu á Katrínu Eddu Jónsdóttur út á hægri væng sem lyfti boltanum skemmtilega yfir Margréti Regínu Grétarsdóttur og kom sér þar með í góða stöðu úti við vítateig Fram. Hún virtist ætla að senda boltann fyrir en boltinn fór í átt að marki og í stöngina og inn.


Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar Tómas Meyer flautaði til leiksloka, eðlilega þar sem liðið er nú komið upp um deild. Tímabilinu er þó ekki lokið því næsta fimmtudag, 9. september, keppir liðið úrslitaleik um fyrsta sæti deildarinnar. Þegar þessi frétt er skrifuð stendur hinn undanúrslitaleikur deildarinnar yfir, milli Fjölnis og Völsungs, og því ekki vitað á þessari stundu hvort Fjölnir eða Völsungur verður andstæðingur F/H/L í þeim leik.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.