Fjarðabyggð í fallsæti

kff_grotta_0062_web.jpgFjarðabyggð er komin í fallsæti í 1. deild karla eftir ósigur gegn ÍA um helgina. Leiknir virðist ætla að fylgja Dalvík/Reyni í úrslitakeppni þriðju deildar.

 

Skagamenn komust í 3-0 fyrir hálfleik og fljótlega í seinni hálfleik bættist fjórða mark þeirra við. Hákon Sófusson skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Fjarðabyggð á 58. mínútu en hann kom inn á sem varamaður. Aron Smárason skoraði annað mark Fjarðabyggðar á 70. mínútu.

Fjarðabyggð og Njarðvík eru í fallsætum 1. deildar með 11 stig en lítill munur er á liðunum í neðri helmingi deildarinnar. Fjarðabyggð tekur á móti Þrótti á miðvikudag.

Fjarðabyggð vann seinast leik gegn HK í Kópavogi 19. júní. Síðan hefur liðið leikið sex leiki, gert tvö jafntefli en tapað fjórum.

Staða Hattar í annarri deild karla er ólíkt betri þótt liðið hafi tapað 1-0 fyrir Völsungi á Húsavík um helgina. Höttur er enn í fjórða sæti en er nokkuð farinn að dragast aftur úr þremur efstu liðunum.

Leiknir styrkti stöðu sína í 3. deild karla með 4-2 sigri á Huginn á fimmtudagskvöld en Leiknir virðist berjast við Magna um hvort liðið fylgi Dalvík/Reyni í úrslitakeppnina.
Vilberg Marinó Jónasson skoraði sitt 200asta mark á ferlinum úr víti í seinni hálfeik. Í fyrri hálfleik skoraði Almar Daði Jónsson tvö mörk fyrir Leikni og Svanur Freyr Árnason eitt. Jack Hands og Tómas Arnar Emilsson skoruðu mörk Hugins, sitt í hvorum hálfleik.
Einherji tapaði 5-1 fyrir Dalvík/Reyni.

Í 1. deild kvenna tapaði Höttur 0-2 fyrir Fjölni í dag. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Á miðvikudag tapaði Fjarðabyggð/Leiknir fyrir Fjölni á Framvellinum, en leikurinn var samt heimaleikur Fjarðabyggðar. Unnur Ólöf Tómasdóttir skoraði markið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.