Blak: Veit ekki enn hvernig við snérum hrinunni okkur í vil

Þróttur vann tvo mikilvæga sigra á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í blaki um helgina. Leikmaður Þróttar komst í seinni leiknum í hóp þeirra leikmanna sem mest hafa skorað í einum leik í Íslandssögunni.

Liðin mættust tvisvar, föstudag og laugardag. Þróttur vann fyrsta leikinn 0-3 eða 23-25, 20-25 og 20-25 í hrinum segja má að liðið hafi allan tíman verið með undirtökin.

„Við vissum að það skipti máli fyrir okkur að vinna, mættum einbeitt til leiks og vissum hvað við þyrftum að gera. Liðið spilaði eins og það á að spila,“ segir Ana Vidal, þjálfari Þróttar.

Hún segir sigurinn hafa eflt sjálfstraustið fyrir seinni leikinn á laugardeginum. „Borja (Gonzalez) og Mateo (Castrillo) hafa glímt við meiðsli að undanförnu og átt erfitt með að spila tvo leiki í röð. Það var léttir að tala við leikmennina eftir leikinn og finna að þeir voru ekki útkeyrðir.“

Vængbrotið Stjörnulið

Þróttur tók seinni leikinn 1-3. Stjarnan vann fyrstu hrinuna 25-21 og hafði í henni yfirburði. Í annarri hrinunni var Stjarnan yfir 23-19 en Þróttur átti ótrúlegan endasprett og vann hrinuna 26-28. „Ég veit ekki enn hvernig við unnum þá hrinu. Ég get viðurkennt það núna.“

Stjarnan var hálf vængbrotin í leiknum eftir að hafa þjálfara sinn og besta leikmanninn. Í staðinn fékk liðið Valgeir Valgeirsson sem til þessa hefur leikið með Þrótti en fengið takmörkuð tækifæri. Vidal sagði þessar breytingar hafa haft áhrif á Garðabæjarliðið. „Ég held að liðið sé hálf áttavillt og hafi misst sjálfstraustið þegar við fórum að skora stig.“

Hún hrósaði einnig hinum þrautreyndar Hlöðveri Hlöðverssyni sem kom inn fyrir Atla Fannar Pétursson í fyrstu hrinu. „Hlöðver átti mjög góða innkomu og skoraði níu stig. Það hljómar kannski ekki mikið en hann skoraði þegar við þurftum á því að halda og gaf okkur annan kost á móti Mateo í sókninni.“

Íslandsmet í stigaskori?

Mateo átti magnaðan leik og skoraði 45 stig. Hjá Blaksambandi Íslands fengust þær upplýsingar að ekki væri hægt að staðfesta það sem Íslandsmet en þar ræki menn ekki minni til slíks stigaskors einstaklings í einum leik hérlendis.

Eftir því sem næst verður komist er heimsmetið 59 stig, sett af Kúberjanum Leonardo Leyva í leik í kóresku deildinni vorið 2013.

Með sigrarnir náði Þróttur þriðja sætinu í deildinni af Stjörnunni. Garðabæjarliðið á hins vegar tvo leiki til góða. Sætin skipa máli því liðin sem leika í fjórða og fimmta sæti deildarinnar spila sín á milli um hvort liðið kemst í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

Stefna á deildarmeistaratitilinn

Kvennaliðið spilaði einnig við Stjörnuna á föstudagskvöld og vann auðveldan 0-3 sigur eða 12-25, 11-25 og 12-25 í hrinum.

„Þetta er einn auðveldasti leikur sem við höfum spilað. Þær voru á vellinum því þær þurftu að mæta en ég fékk ekki á tilfinninguna að þær væru að reyna að vinna,“ segir Ana sem spilar með kvennaliðinu.

Kvennaliðið á svo annan leik í kvöld þegar KA kemur í heimsókn klukkan 19:30. Akureyrarliðið hefur bætt við sig nýjum bandarískum leikmanni en Þróttur er á toppnum. „Við vitum ekkert um hana en við einbeitum okkur að okkar leik. Við erum komin með bestu liðsheild sem við höfum haft síðan ég kom til félagsins. Það geta allir skorað. Við erum full bjartsýni og stefnum á deildarmeistaratitilinn.“

Úr leik Þróttar gegn Aftureldingu fyrir viku í Neskaupstað. Mynd: Blakdeild Þróttar/Jón Guðmundsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar