Blak: Meiðsli settu strik í reikninginn á bikarhelgi

Bæði lið Þróttar féllu úr leik í undanúrslitum bikarkeppninnar í blaki eftir ósigra gegn KA á laugardag. Þjálfari segir mikil meiðsli í herbúðum Þróttar um þessar mundir vera liðinu fjötur um fót.

Kvennaliðið átti að spila gegn KA á föstudagskvöld en vegna óveðurs komst liðið ekki að austan í tæka tíð og var leikurinn því spilaður á laugardag. KA vann þar 3-1 eða 25-11, 24-26, 25-17 og 25-17 í hrinum.

„Þetta var ágætis leikur. Við börðumst vel og vorum skipulagðar í vörninni. Liðið vantar sterkan smassara til að vinna leiki. Hrinan sem við unnum vannst á góðum uppgjöfum og vörn en það er erfitt að spila þannig heilan leik.

Það var vandamál að vera án Vöndu (Jónasdóttur) og Heiðu (Elísabetar Gunnarsdóttur). Ester (Rún Jónsdóttir) og Aníta (Rakel Hauksdóttir) stóðu sig vel en þær skortir reynslu,“ segir Ana Vidal, annar þjálfari Þróttarliðanna um leikinn.

Karlaliðið tapaði sínum leik 3-0 eða 25-11, 25-22 og 25-16 í hrinum. Það var Þrótti áfall þegar Spánverjinn Melero meiddist snemma leiks og færði sig í stöðu frelsingja frekar en sækja á KA upp við netið.

„Í staðinn notuðum við Andra (Snæ Sigurjónsson), sem kantsmassara. og síðan Sölva (Pál Sigurpálsson), sem stóð sig stórkostlega. En með Malero meiddan og svona marga unga leikmenn eigum við ekki roð í lið með fjóra erlenda atvinnumenn.

Sem lið erum með með betra kerfi og mun betra skipulag en KA en þeir eru með sterka smassara sem við eigum erfitt með að stöðva.“

Skammt er á milli leikja núna en kvennaliðið leikur annað kvöld gegn Völsungi um laust sæti í úrslitakeppninni. Karlaliðið mætir Álftanesi í slíkum leik á miðvikudagskvöld.

„Völsungur ætti að vera lakara lið en KA en við erum samt að glíma við sömu meiðslin og um helgina. Við munum gera okkar besta til að þetta verði ekki síðasti leikur okkar á tímabilinu. Ég held að það sé vel hægt að vinna Völsung en við verðum að hafa fyrir því.

Staðan er enn erfiðari hjá karlaliðinu því við höfum ekki Malero til að smassa. Álftanesliðið hefur bætt sig mikið en við verðum að berjast til að reyna að komast í undanúrslitin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar