Blak: Leggja allt undir til að komast í bikarúrslitin

Karlalið Þróttar spilar gegn Stál-úlfi í undanúrslitum bikarkeppninnar í blaki á morgun. Þjálfari liðsins segir liðið hafa sýnt stöðugar framfarir í allan vetur og eiga ágæta möguleika um helgina.

„Við erum mjög spenntir og teljum okkur eiga fína möguleika á að komast áfram í úrslitin. Það verður allt lagt undir,“ segir Atli Freyr Björnsson, þjálfari Þróttar.

Þróttur mætir Stál-úlfi í undanúrslitum á morgun. Stál-úlfur hafnaði í neðsta sæti úrvalsdeildar karla, vann ekki leik, meðan Þróttur náði fjórða sætinu með góðum endaspretti. Stál-úlfur styrkti sig hins vegar eftir áramótin og vann Völsung nokkuð óvænt en örugglega í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.

„Þeir fengu kantsmassara og uppspilara sem eru mjög öflugir. Ég hef fulla trú á að við vanmetum þá ekki þótt við höfum mætt þeim tvisvar í vetur og unnið nokkuð örugglega. Þetta verður ekki auðveldur leikur og við verðum að mæta í hann af fullum krafti.“

Eiga möguleika gegn öllum liðum


Í hinum úrslitaleiknum mætast Hamar, sem hefur verið besta lið landsins undanfarin ár, og KA sem hafnaði í fimmta sæti deildarinnar. Úrslitaleikurinn verður síðan leikinn á sunnudag. „Við höfum spilað vel að undanförnu. Það skiptir mestu máli að við hugsum um eigin leik, ef við spilum vel þá eigum við möguleika gegn öllum liðum.

Við vitum að Hamarsliðið á sjaldan slæman dag en það getur allt gerst í einum leik. Okkar lið hefur sýnt framfarir í allar vetur og er vonandi að nálgast sitt besta. Það væri gott að toppa um helgina.“

Fyrirliðinn, Andri Snær Sigurjónsson, er meiddur á hendi. Hann er í leikmannahópnum um helgina en óvíst er hve mikið hann getur spilað. Aðrir leikmenn eru heilir.

Í bikarúrslit 2016


Karlalið Þróttar hefur einu sinni komist í úrslit bikarkeppninnar, það tapaði 1-3 fyrir KA árið 2016. Atli Freyr var í liðinu þá. „Það var mikið ævintýri sem væri gaman að upplifa aftur.

Þessi bikarhelgi er veisla fyrir þau sem hafa gaman af íþróttinni og vilja sjá hana spilaða á hæsta getustigi hérlendis. Þarna eru yfirleitt lið sem sannarlega eiga heima þarna, það er vel sótt og góð stemming.“

Undanúrslitaleikurinn verður spilaður í íþróttahúsinu í Digranesi í Kópavogi. Hann hefst klukkan 19:30 og verður í beinni útsendingu á RÚV 2.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.