Blak: Kvennaliðið úr leik í bikarkeppninni

Kvennalið Þróttar í blaki féll í gærkvöldi úr leik í átta liða úrslitum bikarkeppninnar eftir 1-3 tap fyrir HK í hörkuleik í Neskaupstað.

Þróttur var á undan upp í 14-13 í fyrstu hrinu en hrökk þá í baklás. HK skoraði sjö stig í röð, komst í 14-20 og vann síðan hrinuna 16-25. Í annarri hrinu hafði HK örugg tök og vann hana 17-25.

Þriðja hrina byrjaði ekki vel, HK skoraði fyrstu fimm stigin en Þróttur svaraði með fjórum og kom sér þannig strax inn í leikinn. Eftir að HK var 14-15 yfir skoraði Þróttur þrjú stig í röð. HK svaraði með þremur stigum en þá var aftur komið að Þrótti sem vann hrinuna 25-19.

Þróttur var í ágætri stöðu í fjórðu hrinu með 19-16 forskot. HK skoraði þá sex stig í röð og vann að lokum 22-25.

Lucya Martin Carrasco var stigahæst hjá Þrótti með 14 stig en Maria Jimenez Gallego skoraði tíu. Karlalið Þróttar spilar gegn Aftureldingu á útivelli í kvöld.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar