Blak: Búnar að stúdera HK-liðið

Þróttur og HK mætast í Neskaupstað í kvöld í fyrst leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki. Fyrirliði Þróttar segir Norðfjarðarliðið vera búið að leggja mikla vinnu í að kortleggja andstæðinga sína.

„Við erum mjög spenntar fyrir leiknum. Við erum búnar að stúdera HK liðið, þessi vika og síðasta hafa mikið til farið í að horfa á myndbönd af þeim og undirbúa viðbrögð við þeirra leik. Vonandi er það nóg,“ segir Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar.

Þróttur er þegar búinn að ná í bikar- og deildarmeistaratitil í ár. HK er hins vegar ríkjandi Íslandsmeistari frá í fyrra. Liðið styrkti sig í byrjun mars þegar Hanna María Friðriksdóttir, miðjumaður, snéri heim frá Noregi.

„Þær hafa verið á uppleið í vetur og styrktust með Hönnu Maríu sem er mjög góður miðjumaður og með góðar uppgjafir. Við horfum hins vegar mest á kantmennina þeirra,“ segir Særún.

Tæpur mánuður er frá síðasta leik Þróttar. Eftir hvíldina eru mest allir leikmennirnir heilir og tilbúnir í rimmuna við HK. Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir hefur að mestu náð sér eftir að hafa snúið sig á ökkla í úrslitum bikarsins.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit. Liðin mætast aftur í Kópavogi á laugardag og Neskaupstað á mánudag. Fyrir þá sem ekki komast á Norðfjörð í kvöld má benda á SportTV og sjónvarpsrás 213.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar