Birna Jóna og Hafdís Anna með verðlaun á MÍ í frjálsíþróttum

Birna Jóna Sverrisdóttir og Hafdís Anna Svansdóttir, keppendur UÍA á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum 15-22 ára, komu báðar heim með verðlaun af mótinu. Það var haldið í Kópavogi fyrr í mánuðinum.

Birna Jóna keppti í flokki stúlkna 16-17 ára. Hún varð þar Íslandsmeistari í sleggjukasti. Hún kastaði 3 kg sleggju 51,72 metra, sem er hennar lengsta kast með þannig sleggju í keppni.

Birna Jóna varð önnur í kringlukasti með 27,72 m kasti, fjórða í kúluvarpi með 10,36 m kasti og fimmta í spjótkasti með 28,77 m kasti. Í öllum tilfellum hún bætti hún sinn besta árangur.

Hafdís Anna keppti í flokki 15 ára stúlkna og varð þar önnur í 300 metra hlaupi á 44,35 sekúndum, sem er hennar besti árangur. Hún varð önnur í 800 metra hlaupi á tímanum 2:41,63 mín en fjórða í 80 metra spretthlaupi á 11,18 sek., sem er hennar besti árangur í greininni. Hafdís varð einnig fimmta í langstökki með stökki upp á 4,41 metra.

Birna Jóna og Hafdís Anna æfa báðar hjá Hetti á Egilsstöðum.

Birna Jóna á efsta palli. Mynd: Hrefna Björnsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar