Austfirðingar sigursælir í Íslandsglímunni

Þórður Páll Ólafsson er nýr glímukóngur Íslands og Marín Laufey Davíðsdóttir glímudrottning. Þau búa bæði á Reyðarfirði þótt Þórður Páll glími fyrir UÍA og Marín Laufey fyrir HSK.

Íslandsglíman, þar sem keppt er um Grettisbeltið í karlaflokki og Freyjumenið í kvennaflokki, fór fram á Laugarvatni um helgina.

Marín Laufey vann þar Freyjumenið í sjötta sinn. Hún var með fullt hús, þrjá vinninga. Elín Eik Guðjónsdóttir úr UÍA varð önnur eftir að hafa lagt Jóhönnu Vigdísi Pálmadóttur úr Glímufélagi Dalamanna í glímu um annað sætið. Kristín Embla Guðjónsdóttir var þriðji fulltrúi UÍA í keppninni en glímufólk úr Val Reyðarfirði keppir á landsvísu undir merkjum héraðssambandsins.

UÍA átti einnig þrjá keppendur í karlaflokki. Þar vann Þórður Páll með átta vinninga en hann lagði alla sína andstæðinga. Hann vann þar með Grettisbeltið í fyrsta sinn. Hákon Gunnarsson varð annar með sjö vinninga. Snjólfur Björgvinsson var þriðji keppandinn.

Þá eru einnig gefin verðlaun fyrir fegurð í glímu. Marín Laufey fékk hæstu einkunn í kvennaflokki og Kristín Embla næst hæstu. Þar heitir verðlaunagripurinn Rósin.

Í karlaflokki komst Hákon einn Austfirðinga í efstu sætin, varð annar. Sigurvegarinn fékk hins vegar Hjálmshornið.

Mynd: Glímusamband Íslands/Antanas Šakinis Photography


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar