„Æfum til að geta spilað leiki“

Úrvalsdeild karla í körfuknattleik hefst á nýjan leik í kvöld eftir þriggja mánaða hlé vegna Covid-19 faraldursins. Höttur mætir deildarmeisturum Stjörnunnar í Garðabæ. Þjálfari liðsins segir það tilbúið í slaginn.

„Við erum spenntir fyrir leiknum í kvöld. Menn æfa og bíða eftir að geta spilað leiki og við höfum saknað þess,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Höttur spilaði einn leik, tapleik á Egilsstöðum gegn Grindavík, áður en allt var sett á ís. Æfingar hafa staðið í mánuð eftir að þær voru leyfðar á ný en keppni var loks leyfð í gær. Engir áhorfendur verða þó leyfðir á leikjum næsta mánuðinn.

„Ég veit ekki hvaða áhrif það hefur. Við höfum aldrei spilað keppnisleiki án áhorfenda. Það verður öðruvísi að gíra sig upp í leikina án stemmingarinnar í húsunum,“ segir Viðar Örn.

Höttur fékk að æfa tveimur vikum lengur í haust en liðin af höfuðborgarsvæðinu. Gagnrýnt var þá að það gæti gefið liðum af landsbyggðinni forskot. Viðar telur að það skipti litlu máli nú. „Það skemmir ekki fyrir að hafa fengið að æfa lengur en skiptir litlu máli í stóra samhenginu.“

Spilað verður þétt til að bæta upp fyrir tapaða tíma. Leikið verður tvisvar í viku, fimmtudaga og sunnudaga, fram í miðjan febrúar að gert verður tveggja vikna hlé vegna landsleikja. Þá hefst törnin á ný og stendur fram í miðjan apríl.

Andstæðingarnir í kvöld eru Stjarnan, liðið sem spáð er Íslandsmeistaratitlinum meðan reiknað var með Hetti í fallbaráttuna. „Þetta er mikil áskorun en ég held að við séum bara spenntir og tilbúnir að koma með óvænt úrslit.“

Þeir Hreinn Gunnar Birgisson og Juan Luis verða ekki með í kvöld vegna meiðsla. Einn nýr leikmaður verður með Hetti, bandaríski bakvörðurinn Michael Mallory sem tekið hefur sæti Shavar Newkirk sem fór í hléinu. „Ég held að Mallory sé maðurinn sem við höfum verið að leita að. Hann er góður alhliða leikmaður og mikill skorari,“ segir Viðar Örn.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.