Knattspyrna: Kemur fyrsti sigur Hattar of seint?

hottur ir agust13 sellars webHöttur vann sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið lagði Hamar í Hvergerði í botnslag í annarri deild karla með marki í blálokin. Leikurinn kann að hafa orðið báðum liðum að falli. Einherji tryggði sér efsta sætið í sínum riðli í fjórðu deild karla með því að bursta Ými 9-1. Sigurður Donys Sigurðson skoraði þar fjögur mörk.

Getur Höttur í alvöru bjargað sér frá falli?

Eftir 1-1 jafntefli síðasta þriðjudag þar sem Högni Helgason skoraði í uppbótartíma jöfnunarmark var ljóst að sæti Hattar í 2 deild myndi hanga á bláþræði gegn því þarna þurftu Héraðsbúar að ná þremur stigum líkt og í flest öllum leikjum sem eftir eru af mótinu.

Hagur Hattarmanna vænkaðist þó á laugardaginn þegar að liðið náði að sigra Hamar frá Hveragerði á Grýluvelli. Það var Conor Sellars sem skoraði eina mark leiksins með síðustu snertingu leiksins. Stuttu áður hafði heimamaðurinn Garðar Már Grétarsson verið sendur í sturtu með tvö gul.

Hattarar eru með fyrsta sigri sínum í sumar komnir upp úr neðsta sætinu en þangað sendu þeir Hamar með úrslitum helgarinnar. Enn eru 7 stig upp í öruggt sæti í deildinni en þar sitja Ægismenn þegar að fimm umferðir eru eftir af mótinu. Höttur þarf því líklega að vinna fjóra af fimm síðustu leikjum sínum auk þess að treysta á hagstæð úrslit andstæðinga Ægis hverju sinni.

Möguleikinn á að bjarga sér er fyrir hendi en til þess þurfa menn að girða sig vel í brók, spýta í lófana og byrja að skila sigrum heim í hús. Næsti leikur er heima gegn Reyni Sandgerði og verður sá leikur upp á ekkert annað en líf eða dauða hjá Hetti en fall gæti þýtt langa eyðimerkurgöngu fyrir Hött í neðstu deildum.

Fjarðabyggð og Huginn fóru létt með Augnablik

Augnablik kom í heimsókn austur sem leikmenn liðsins vilja sjálfsagt gleyma sem fyrst. Liðið steinlá fyrir Fjarðabyggð á föstudagskvöldinu og tapaði svo fyrir Huginn á sunnudeginum.

Það var reynsluboltinn Tommy Nielsen sem kom Fjarðabyggð á bragðið og skoraði Sveinn Fannar Sæmundsson annað mark heimamanna og var staðan tvö núll þegar flautað var til hálfleiks. Í seinni hálfleik skoruðu svo Martin Sindri Rosentahl, Hákon Þór Sófusson, Tommy Nielsen setti sitt annað mark áður en Bergsteinn Pálsson skoraði sjötta og síðasta mark Fjarðabyggðar. Augnablik náðu þó að klóra í bakkann og skoruðu eitt mark sem dugði ákaflega skammt. Flest marka Fjarðabyggðar komu eftir hornspyrnur þar sem gestirnir úr Kópavogi steingleymdu að dekka gestgjafa sína.

Það var markamaskínan frá Djúpavogi, Birgir Hákon Jóhannsson sem skoraði fyrstu tvö mörk Huginns gegn Augnabliki og þar við sat í hálfleik. Í þeim seinni komu Augnabliksmenn sterkari til leiks og jöfnuðu i´ 2-2. Leikar voru því jafnir þangað til að um tíu mínútur voru eftir þegar að Friðjón Gunnlaugsson skoraði úr víti og á lokamínútu leiksins var það svo Marteinn Gauti Kárason sem gulltryggði sigur Seyðfirðinga 4-2.

Fáskrúðsfirðingar halda áfram að tapa stigum en Leiknir hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum. Ljóst var að þeirra biði erfiður leikur á Grundarfirði. Eftir að Hilmar Freyr Bjartþórsson hafði náð að jafna 1-1 gegn heimaliðinu snemma í síðari hálfleik þá missti Leiknir leikinn úr hendi sér. Tvö gul spjöld í upphafi seinni hálfleiks þýddu að Svanur Freyr Árnason, fyrirliði Leiknis, þurfti að fara upp í stúku. Var það í stöðunni 2-1 en leikurinn endaði 4-1 fyrir Grundarfirði.

Þegar að fjórar umferðir eru eftir hafa Huginn og Fjarðabyggð 36 stig hvort en Fjarðabyggð liggur í topsætinu á markamun. Í þriðja sæti er svo ÍH með 24 stig og mun lakara markahlutfall en liðin tvö frá Austurlandi. Það þýðir því að einungis náttúruhamfarir geta komið í veg fyrir að Fjarðabyggð og Huginn leiki í 2 deild að ári og má óska þeim kærlega til hamingju með glæsilegt fótboltasumar.

Þeir appelsínugulu sjóðandi heitir

Í C-riðli fjórðu deildar eru yfirburðir Einherja óumdeilanlegir. Vopnfirðingarnir gjörsamlega slátruðu Ými á Vopnafjarðavelli á laugardaginn síðasta. Lokatölurnar urðu 9-1 eftir að Einherja menn voru 4-0 yfir í hálfleik.

Voru lokatölur 9-1 og hálfleikstölur 4-0. Mörk Einherja skoruðu Sigurður Donys Sigurðsson (4), Gunnlaugur Bjarnar Baldursson (2), Eiríkur Páll Aðalsteinsson, Ingi Þór Gunnarsson auk þess að þjálfari heimamanna Víglundur Páll Einarsson setti eitt.

Með þessum úrslitum eru Einherji búnir að vinna riðillinn sinn í fjórðu deild þegar þeir eiga eftir að leika tvo leiki. Þeir hafa markahlutfallið 45+ í tólf leikjum, virkilega vel gert og vonandi koma þeir til með að eiga lið í þriðju deild 2014.

Misjafnt gengi kvennaliða Hattar og Fjarðabyggðar í sumar

Í fyrstu deild kvenna unnu Hattarstelpur síðasta leik gegn Völsungi 0-2. Það var Fanney Þórunn Kristinsdóttir sem skoraði eina mark fyrri hálfleiks. Í þeim síðari skoraði svo Magdalena Anna Reimus og þar við sat.

Fjarðabyggð sótti Keflavík heim og þar fékk Suðurnesjaliðið sitt fyrsta stig í sumar en leikurinn endaði 3-3. Fimm af sex mörkum leiksins komu á síðustu tíu mínútunum en það var Elma Sveinbjörnsdóttir sem náði að bjarga stigi fyrir Fjarðabyggðastúlkur eftir að Andrea Magnúsdóttir og Jena Mathe Emanuel höfðu skorað sitthvort markið.

Þegar að ein umferð er eftir eiga Hattarstúlkur möguleika á þriðja sæti en Fjarðabyggð getur best náð sjötta sæti þar sem þær sitja nú sem fastast.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.