Dramatík á Seyðisfirði: Fjarðabyggð vann Huginn með marki í uppbótartíma

kff hottur 17062011 0042 webFjarðabyggð hafði sætaskipti við Huginn í þriðju deild karla í knattspyrnu eftir 1-2 sigur í uppgjöri toppliðanna á föstudagskvöld. Sigurmarkið kom í blálokin. Leikmenn Hattar eru hins vegar vonsviknir eftir erfiða helgi.

Stemmingin er misgóð í Fjarðabyggð eftir því í hvaða þéttbýliskjarna þú ert staddur hverju sinni þessa dagana. Fjarðabyggð tryggði sér nánast sæti í annarri deild að ári eftir stórleik helgarinnar gegn Huginn á Seyðisfirði og skilja þeir þar með frændur sína í Leikni eftir til þess að spila í 3. deild að ári.

Leikur Hugins og Fjarðarbyggðar var gríðarlega fjörlegur allt frá fyrstu mínútu en gestirnir voru þó með undirtök nánast allan leikinn.

Bæði lið skoruðu úr víti í fyrri hálfleik sem dómari leiksins dæmdi réttilega. Víkingur Pálmason kom KFF yfir á 19. mínútu en Friðjón Gunnlaugsson jafnaði á 41. mínútu.

Eins og áður kom fram þá voru gestirnir betra liðið nánast allan leikinn fyrir utan kannski korter í seinni hálfleik. Þrátt fyrir að gera sig líklega náðu þeir ekki að skora fyrr en komið var í uppbótartíma. Sveinn Fannar Sæmundsson, sem hafði átt góðan leik, smellhitti boltann við vítateigslínuna og sendi hann í hornið, óverjandi fyrir Atla Gunnar Guðmundsson í marki heimamanna.

Þótt markið kæmi seint voru úrslitin sanngjörn. Liðin eru efst og jöfn með 33 stig en Fjarðabyggð með betra markahlutfall. Fimm umferðir eru enn eftir og fátt virðist geta komið í veg fyrir að liðin fari upp um deild. Níu stig eru í næsta lið sem leikið hefur leik meira. Það verður að teljast sanngjarnt enda um tvö bestu lið deildarinnar að ræða.

Ef að Leiknir átti nokkurn möguleika á að berjast við þau um að komast upp um deild þá dó sú von út þegar að liðið gerði 2-2 jafntefli á Búðagrund gegn Víði Garði.

Leiknir komst tvívegis yfir í leiknum með mörkum Almars Daða Jónssonar og hins unga Kristófers Páls Viðarssonar en mark frá gestunum á 92. mínútu sá til þess að stigið var bara eitt sem rann til Leiknis.

Enn gengur ekkert hjá Hetti

Leikmenn karlaliðs Hattar eru sennilega svekktustu leikmenn Íslandsmótsins í knattspyrnu þessa helgina eftir ferð sína í betri part Reykjavíkur um helgina þar sem þeir léku gegn Knattspyrnufélagi Vesturbæjar.

Voru margir á því að þrjú stig þyrftu að koma í hús Héraðsbúa þar sem þetta væri síðasti sjens Hattarmanna til þess að eiga nokkurn sjens á að halda sér uppi. Fækkað var um einn á bekk Hattarmanna í fyrri hálfleik þegar Tómas Arnar Emilsson, aðstoðarþjálfari, fékk sitt annað gula spjald og þar með brottvísun fyrir mótmæli.

Höttur komst yfir með glæsimarki Högna Helgasonar um miðjan síðari hálfleik. Eins og svo oft áður í sumar náðu Hattarmenn ekki að láta kné fylgja kviði og glötuðu niður forskotinu á síðustu 10 mínútum leiksins.

KV jafnaði þegar um fimm mínútur voru eftir af leiktímanum eftir að vítaspyrna hafði verið dæmd á Hött. Á 92. mínútu fækkaði hins vegar í liði Vesturbæinga þegar einn þeirra fékk reisupassann fyrir brot á sóknarmanni Hattar sem var á leið í upplagt marktækifæri.

Einum færri tókst samt heimamönnum að stela sigrinum þvert ofan í sóknir Hattar með síðustu snertingu leiksins á 94. mínútu.

Höttur mun spila í þriðju deild að ári nema með tilkomu kraftaverks eftir gríðarlegt vonbrigða sumar. Tíu stig eru í liðið í tíunda sæti sem gefur þátttökurétt í 2. deild að ári og ekki nema sjö umferðir eftir.

Kvennaliðin komast ekki í úrslitakeppnina

Hattarstúlku léku síðan gegn öðru liði úr Vesturbænum á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöldið en sá leikur markaði að sumu leyti upphaf Ormsteitis sem nú er farið í gang á Fljótsdalshéraði. Eftir leikinn var þó enginn hátíðarbragur yfir mannskapnum þar sem að heimastúlkur töpuðu 1-2 gegn þeim röndóttu.

Þjálfarinn, Sigríður Baxter, skoraði mark heimastúlkna á 92. mínútu eftir að KR hafði verið búið að koma sér í þægilega stöðu 0-2.

Þessi úrslit þýða því það að Hattarstúlkur sem hafa oft á köflum leikið glimrandi vel í sumar munu ekki berjast um það að fara upp í Pepsi deild en miðað við mannskap og spilamennsku í sumar má gera fastlega ráð fyrir því að þær setji stefnuna þangað upp að ári.

Fjarðabyggð, sem er í þriggja vikna fríi, á heldur engan möguleika á umspili með sex stig úr ellefu umferðum.

Einherji í góðri stöðu

Einherji hefur heldur ekki leikið síðustu tvær vikurnar en liðinu hefur samt gengið vel í sumar og er í fjögurra stiga forskot á toppi C riðils fjórðu deildar karla og eiga leik til góða þegar einungis tvær umferðir eru eftir. Því ætti engum að bregða við að sjá Einherja í þriðju deild að ári.

Það er klárt mál að von er á miklum hrókeringum á milli deilda hjá liðum á Austurlandi þegar að nýtt Íslandsmót hefst að ári. Sumir fagna meðan aðrir munu svekkja sig og spyrja hvað hefði betur mátt fara.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.