Tour de Ormurinn: Þórarinn og Hafliði settu brautarmet

tour de ormurinn 2013 0101 webÞórarinn Sigurbergsson setti brautarmet þegar hann varð fyrstur í mark í 103 km keppni í hjólreiðakeppninni Tour de Orminum sem fram fór á Fljótsdalshéraði í dag. Hafliði Sævarsson bætti einnig eldra met í 68 km keppninni.

Þórarinn kom í mark á 3:49,12 tímum og bætti þar með brautarmetið frá í fyrra um þrettán mínútur. Það átti Unnsteinn Jónsson sem kom annar í mark á 3:56,55 klst. Aðalsteinn Aðalsteinsson varð þriðji í 103 km hringnum á tímanum 4:53,55 klst.

Í keppninni er ræst í Hallormsstaðarskógi og hjólað út í Egilsstaði og upp Fell. Tveir hringir eru í boði, í lengri hringnum er hjólað alla leið inn að innsta bæ í Fljótsdal en í styttri hringnum, 68 km umhverfis Löginn en þá er farið yfir brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal við Hengifoss. Endamarkið er líkt og rásmarkið á Hallormsstað.

Þar varð Hafliði Sævarsson fyrstur í mark á 2:30,19 klst. sem einnig er nýtt brautarmet. Eldra metið var 2:34 klst. Óskar Aðalbjarnarson varð annar í karlaflokki 2:57,04 klst.

Eiginkona hans, Stefanía Gunnarsdóttir, varð fyrst í kvennaflokki á 2:59,14 en Pálína Margeirsdóttir önnur á 3:49,15.

Í styttri vegalengdinni er einnig boðið upp á liðakeppni þar sem þrír skipta með sér erfiðinu. Hilmar Gunnlaugsson, Sigurður Magnússon og Ívar Ingimarsson mynduðu liðið sem kom fyrst í mark á 2:39,28 en þau Aðalsteinn Þórhallsson, Gyða Guttormsdóttir og Hjálmar Jóelsson urðu önnur á 3:17,27.

Veður til hjólreiða í dag var ágætt. Nokkuð heitt var í veðri, ríflega fimmtán stiga hiti og sól. Sunnangola kældi keppendur nokkuð en gerði þeim hins vegar erfitt, sérstaklega í brekkunum í Fellum.

Tour de Ormurinn var fyrst haldinn í fyrra. UÍA (Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands), sveitarfélagið Fljótsdalshérað og ferðaþjónustufyrirtækið Austurför standa sameiginlega að keppninni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.