Kvennahlaupið fer fram á laugardaginn

kvennahlaup egs12 1Hið árlega Kvennahlaup ÍSÍ fer fram á laugardaginn. Hlaupið er einn stærsti íþróttaviðburður ársins en hlaupið er á tíu stöðum á Austurlandi.

Alls verður hlaupið á 80 stöðum hérlendis og á 20 stöðum erlendis. Undanfarin ár hafa hlaupararnir verið í kringum 15 þúsund sem taka þátt í Kvennahlaupinu. Hátíðardagskrá verður á mörgum hlaupastöðum og víða verður frítt í sundlaugar fyrir þátttakendur að loknu hlaupi.
Hefð hefur skapast hjá mæðgum, systrum, frænkum og vinkonum að mæta saman í hlaupið og hvetja hver aðra áfram.

Hreyfum okkur saman

Markmið Kvennahlaupsins er að hvetja konur til þess að hreyfa sig og stunda heilbrigt líferni. Á hverju ári er valið eitt málefni tengt konum til þess að vekja athygli á en í ár var ákveðið að vera í samstarfi við styrktarfélagið Göngum saman.

Árlega greinast um 195 konur með brjóstakrabbamein sem er algengasta krabbamein meðal kvenna. 90% þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein eru á lífi fimm árum eftir greiningu.

Árið 2012 veiti Styrktarfélagið Göngum saman 10 milljónir króna til íslenskra rannsóknaraðila á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Með þessari styrkveitingu hefur Göngum saman úthlutað alls rúmum 32 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini á fimm árum.

Kvennahlaupsbolirnir eru grænir í ár

Kvennahlaupsbolirnir í ár eru grænir með V hálsmáli og úr teygjanlegu DRI-FIT efni sem andar vel. Hægt er að kaupa hlaupabolina víða í forsölu, og þar með skrá sig í hlaupið, hjá tengiliðum á hverjum hlaupastað víða um land. Einnig er hægt að skrá sig til leiks á hlaupastað á hlaupadaginn.

Þátttökugjaldið er 1.000 kr. fyrir 12 ára og yngri en 1500 krónur fyrir 13 ára og eldri en innifalið í því er bolurinn og verðlaunapeningur við endimörk hlaupsins. Auk þess fá allir þátttakendureinnig glaðning frá NIVEA og Ölgerðinni.

Hlaupastaðir á Austurlandi

Vopnafjörður: Hlaupið frá skrifstofu Einherja Hafnarbyggð 4 kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 2,5 km - 5 km.

Egilsstaðir: Hlaupið frá Tjarnargarðinum á Egilsstöðum kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 2,5 km og 6 km. Forskráning 4., 6. og 7. júní frá 16 - 18 í Nettó og Bónus á Egilsstöðum. Frítt í sund fyrir þátttakendur.

Seyðisfjörður: Hlaupið frá Torgi kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 3,5 km - 5 km og 10 km. Forskráning í Íþróttahúsinu. Frítt í sund að loknu hlaupi.

Borgarfjörður Eystra: Hlaupið frá Félagsheimilinu Fjarðarborg kl. 13:00. Vegalengdir í boði: 2 km og 3 km. Forskráning hjá Sigrúnu Arngrímsdóttur.

Reyðarfjörður: Hlaupið frá Andapollinum á Reyðarfirði kl 11:00. Vegalengdir í boði 3 km - 5 km og 7 km. Forskráning við Andapollinn kl. 10 á hlaupadag.

Eskifjörður: Hlaupið frá Sundlaug Eskifjarðar kl. 11:00. Vegalengdir í boði 3 km - 6 km og 10 km. Forskráning í síma 866-8868 eða 867-0346. Frítt í sund að loknu hlaupi.

Neskaupsstaður: Hlaupið frá Nesbæ kaffihúsi kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 3 km – 5 km og 7 km. Forskáning í Kaffihúsinu Nesbæ 4. og 5. júní frá 16:30 – 18:00 og 6. og 7. júní frá 13:00 – 18:00. Happadrætti fyrir þær sem kaupa boli í forsölu og frítt í sund að loknu hlaupi.

Fáskrúðsfjörður: Hlaupið frá Sundlauginni á Fáskrúðsfirði kl. 10:00. Vegalengdir í boði: 3 km - 5 km og 10 km. Forskráning í Sundlauginni á opnunartíma. Frítt í sund að loknu hlaupi.

Stöðvarfjörður: Hlaupið frá Brekkunni kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 2 km - 4 km og 8 km. Forskráning á Brekkunni. Frítt í sund fyrir þátttakendur að loknu hlaupi og frí súpa.

Djúpivogur: Hlaupið frá íþróttamiðstöðinni kl. 11:00. Vegalengdir í boði: 2 km og 4 km. Frítt í sund að loknu hlaupi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar