Matthías Haralds: Hinn frægi gúmmíhandleggur birtist í lokin

matthias_haralds.jpgÁkveðni vantaði í lið Þróttar til að klára fyrsta leikinn gegn HK í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki í gær að mati þjálfarans, Matthíasar Haraldssonar. Æfingar og undirbúningur vikunnar skilaði sér í 3-1 sigri.

„Þjálfarinn reynir að líta út fyrir að vera mjög rólegur,“ sagði Matthías um líðan sína í lok fjórðu hrinu. Þróttur vann hana að lokum 29-27 en hafði þá áður fengið þrjár tilraunir til að vinna.

„Hinn frægi gúmmíhandleggur vill oft koma fram við svona kringumstæður. Þær hætta að þora að láta vaða en velja frekar að smassa lausar og lauma. Stelpurnar verða að vera ákveðnari og lemja þessa bolta í lokin eins fast og hægt er þegar færi gefst.“

Vitlaus uppstilling kostar stig

Tuttugu mínútna töf varð í byrjun hrinunnar í stöðunni 4-5. Þá kom í ljós að sendiröð Þróttar var vitlaus. Tvö stig voru dæmd af liðinu og sendirétturinn en einu bætt á HK þannig að staðan varð allt í einu 2-6.

„Ég stilli miðjunum upp við hliðina á uppspilaranum en við höfum notað kantmennina þar í allan vetur. Allt annað var rétt. Þetta eru mistök í hita leiksins sem skrifast á mig,“ sagði Matthías og bætt við. „Það hefði verið fínt að hafa þessi tvö stig í lokin.“

HK var að stinga af

Þróttur vann fyrstu hrinuna 25-19 en HK svaraði strax með sömu stigatölu. Þegar staðan var 3-7 í þriðju hrinu tók Matthías leikhlé og las vel yfir sínu liði.

„Við lentum undir á sama hátt í annarri hrinu og þarna stefndi í sama farið svo ég tók leikhlé og lét þær heyra það. Þær brugðust vel við, Kristín fór í uppgjöf og dældi á HK sem oftar, blokkinn lokaðist og þetta gekk upp. Þú vilt ekki missa HK fram úr þér svona strax í byrjun hrinu. Þá þarftu alltaf að elta og leikurinn verður erfiðari.“

Snýst um hvort liðið tekur betur á móti boltanum og nær spili

Heilt yfir var Matthías sáttur við frammistöðu Þróttarliðsins. „Móttakan datt niður á köflum hjá okkur en við björguðum okkur út úr því. HK var líka í vandræðum með okkar uppgjafir. Þetta snýst um hvort liðið nær að taka betur á móti og spila fram að neti.“

Þegar það heppnast hjá HK eru fá lið sterkari. „HK er mjög gott sóknarlið, sérstaklega ef þær fá boltann fram að neti. Mér fannst við samt verja nokkuð marga bolta í kvöld. Blokkin stóð sig vel enda búin að æfa vel í vikunni.“

Mikilvægt svar eftir bikarúrslitin

Matthías segir það hafa verið jákvætt að sjá viðbrögð Þróttar eftir tap gegn HK í bikarúrslitum fyrir tíu dögum þar sem liðið missti úr höndunum nánast unninn leik eftir að hafa unnið fyrstu tvær hrinurnar.

„Það var þungt högg að tapa þeim leik og hvernig hann tapaðist. Sigurinn í kvöld var því mjög mikilvægur. Við förum í Fagralund á fimmtudag og vonumst eftir sigri þar þannig við eigum möguleika á að taka á móti bikarnum á laugardag. Það er samt enn allt opið í þessari rimmu og leikirnir geta orðið fimm.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.