Þróttur getur tryggt Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli

blak_throttur_hk_urslit_02042013_0195_web.jpgÞróttur er með pálmann í höndunum í viðureign sinni við HK um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna eftir 0-3 sigur í öðrum leik liðanna í Kópavogi í kvöld. Þróttur hefur unnið fyrstu tvo leikina og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í þriðja leiknum í Neskaupstað á laugardag.

Þróttur tók forustuna snemma í fyrstu hrinu leiksins í kvöld og vann hana 18-25. Liðið hélt áfram á sömu braut í þeirri næstu, komst í 0-6 og vann hana örugglega, 14-25. Norðfjarðarliðið hafði sömuleiðis undirtökin allan tíman í þriðju hrinunni og vann 17-25.

HK liðið átti óvenju dapran dag í kvöld og virtist hreinlega hafa orðið eftir austur í Neskaupstað eftir fyrsta leikinn á miðvikudag. Á móti var Þróttar liðið vel undirbúið og spilaði þétta vörn. Sérstaklega tókst þeim að halda aftur af hinni öflugu Elsu Valgeirsdóttur.

Lilja Einarsdóttir var stigahæst í liði Þróttar í kvöld með 12 stig en Lauren Laquerre skoraði ellefu.

Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar, vildi lítið ræða nýliðinn leik þegar Austurfrétt náði í hann í kvöld. „Ég er mjög sáttur við leik liðsins í kvöld en við verðum að spila jafn vel eða betur á laugardaginn. Úrslitarimman er langt frá því að vera búin. Við tökum bara eitt stig, eina hrinu fyrir í einu.“

Hann segir að öll athyglin beinist nú að leiknum í Neskaupstað á laugardag. „Við ætlum okkur að sjálfsögðu að klára dæmið þá og ég vonast til að sjá fullt íþróttahús í Neskaupstað.“

Leikurinn hefst þar klukkan 14:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar