600 keppendur á fimleikamóti: Skiptir miklu máli að fá að keppa heima

fimleikar avaxtakarfan 0069 webEgilsstaðir fyllast af fimleikafólki um helgina en von er á ríflega sex hundruð keppendum á vormót Fimleikasambands Íslands sem Höttur heldur um helgina. Yfirþjálfari Hattar segir eftirvæntingu til að fá gestina í heimsókn.

„Í fyrsta lagi skiptir það máli að fá að keppa á heimavelli því þar þekkirðu aðstöðu og áhöld, það er gaman að sýna öðrum keppendum sem við mætum 3-4 sinnum á ári hvað við eigum og ég held að þetta skipti máli fyrir samfélagið að vita hvað við erum að gera góða hluti," segir Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari fimleikadeildar Hattar.

Til leiks eru skráð 53 lið frá tólf félögum sem hafa verið að koma til Egilsstaða í dag. Keppendur eru yfir 600 talsins á aldrinum 10-18 ára. Þeim fylgja þjálfarar og forráðamenn.

Mótið hefst með kvöldvöku í kvöld en keppni klukkan átta í fyrramálið og stendur til klukkan tíu að kvöldi. Keppni hefst aftur klukkan átta á sunnudagsmorgun og stendur fram yfir tvö.

Gist er í Egilsstaðaskóla og keppt í íþróttahúsinu en fimleikafólkið mun setja mark sitt á bæinn því sætaferðir verða á klukkutíma fresti frá íþróttahúsinu og niður í miðbæ.

Frá Hetti koma sjö lið með ríflega 60 keppendum og segir Auður Vala að undirbúningur þeirra hafi verið með öðrum hætti en áður.

„Þau eru vön ferðalögunum og eru pínu fúl að fá ekki að gista saman því þau kunna eiginlega ekki annað. Foreldrarnir eru að byrja nú að hóa þeim saman til að skapa stemminguna."

Þá er vert að taka það fram að keppendur frá Leikni Fáskrúðsfirði taka í fyrsta sinn þátt í Íslandsmóti í hópfimleikum og keppa sem gestir um helgina.

Þetta er í þriðja sinn sem vormótið er haldið eystra en það ferðast gjarnan á milli landsbyggðarfélaga. „Þetta er búin að vera mikil vinna. Við hófum forvinnu í desember en við þurfum mikið af áhöldum og fullt af foreldrum," segir Ragnar Magnús Þorsteinsson, þjálfari hjá deildinni.

Hann segir undirbúninginn hafa gengið vel. „Maður hefur aldrei verið svona öruggur með sig áður fyrir mót."

Þetta er í þriðja sinn sem Höttur heldur mótið og var það síðast haldið eystra fyrir þremur árum en hefð hefur skapast á að það flakki milli landsbyggðarfélaga. Ferðalagið austur virðist lítil áhrif hafa á þátttöku gestaliðanna.

„Það mæta flest þau lið sem við erum vön að keppa við og með mikinn fjölda og mér þykir mjög vænt um það," segir Auður Vala.

Af öðrum íþróttum helgarinnar er helst að frétta að Fjarðabyggð leikur fyrsta heimaleik sinn í fyrstu deild karla í knattspyrnu. Liðið tekur á móti KA í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 14:00 á morgun.

Stórleikur helgarinnar verður á Fellavelli í kvöld þegar Huginn tekur á móti Hetti í 2. deild. Leikurinn hefst klukkan 20:00.

Í sömu deild tekur Leiknir á móti Dalvík/Reyni klukkan 16:30 á morgun.

Einherji hefur keppi í þriðju deild á laugardag þegar liðið heimsækir Magna.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.